Í brennidepli
Signý Pála Pálsdóttir
signyp@mbl.is
Mikið áhyggjuefni er að þriðjungur fyrirtækja í sjávarútvegi sjái fyrir sér að fækka þurfi starfsfólki á næstu sex mánuðum, að mati Vilhjálms Birgissonar framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins (SGS). Hann bendir á að sjávarútvegur hafi verið burðarstólpi margra sveitarfélaga víða um landið og því sé það áhyggjuefni að 33% fyrirtækja í sjávarútvegi sjái fram á að það þurfi að fækka starfsfólki.
Í Morgunblaðinu í gær birtust niðurstöður könnunar sem framkvæmd var af Gallup fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands. Þar voru forsvarsmenn 400 stærstu fyrirtækja landsins spurðir um ástand og horfur í efnahagslífi. Niðurstöður gáfu til kynna að fyrirtækin mætu efnahagshorfur að jafnaði þannig að þær myndu versna næstu sex mánuði.
„Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að það ríki stöðugleiki og að fyrirtækjum séu sköpuð góð rekstrarskilyrði þannig að þau geti fjölgað fólki og það sé þannig sem ávinningur samfélagsins í heild sinni skili sér með bestum hætti,“ segir Vilhjálmur. Þá hefur SGS miklar áhyggjur af niðurstöðum um viðhorf fyrirtækjanna til þróunar efnahagsmála. Hann segir ástæðu til þess að stjórnvöld rýni í af hverju stórfyrirtæki á Íslandi meti það þannig að efnahagshorfur stefni í öfuga átt á næstu sex mánuðum.
Niðurstöður koma ekki á óvart
Gunnþór Ingvason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir niðurstöðurnar ekki koma á óvart. Hann segir að hægt sé að horfa á þróun á verðvísitölu sjávarafurða í samanburði við aðrar verðvísitölur. Þar að auki séu víða verðhækkanir sem hafi áhrif á fyrirtæki og nefnir hann í því samhengi þróun orkukostnaðar, sem komi sér mjög illa fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi, og auk þess sé launaþróun komin umfram verðvísitölu sjávarfangs.
Tollastríð og átök í heiminum geti einnig haft áhrif á viðhorf fyrirtækja sem sinna útflutningi eins og fyrirtæki í sjávarútvegi gera. Sterkt gengi krónunnar hafi líka mikil áhrif á afkomu útflutningsgreina. Íslenskur sjávarútvegur sé í alþjóðlegri samkeppni og nái ekki að mæta breytingum á álögum eða hækkun kostnaðar með því að hækka verð.
Þá eru margvísleg teikn á lofti sem hafi áhrif á viðhorf fyrirtækja í sjávarútvegi til efnahagsmála og nefnir veiðigjöldin. Útlit sé fyrir verðhækkanir innanlands sem kunni að hafa áhrif. Hann segir næstu sex mánuði verða erfiða ef veiðigjöldin fara í gegn þar sem því gætu fylgt miklar hagræðingar og samdrátt til að mæta þessum breytingum. „Það er ekki hægt að taka tugi milljarða út úr einni atvinnugrein og halda að það breyti engu,“ segir Gunnþór.
Staðan í efnahagslífinu er því ekki góð út frá forsendum sjávarútvegsfyrirtækja að sögn Gunnþórs. Mörg viðvörunarljós logi bæði hérlendis og erlendis þrátt fyrir að margir markaðir séu sterkir víða um heim.
Hann segir að áform um veiðigjöld hafi vissulega áhrif á viðhorf fyrirtækjanna til þess að fækka þurfi starfsfólki á næstu sex mánuðum. Þessar niðurstöður séu því það sem við megi búast gangi áform um veiðigjöld eftir.
Erfitt að snúa þróuninni við
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir ástæðu til að hafa áhyggjur af niðurstöðum könnunarinnar. Hann bendir á að mun færri telji að efnahagsástandið muni batna næstu sex mánuði. Að sama skapi telji nú fleiri að aðstæður versni. Það séu því talsverð umskipti miðað við síðustu kannanir.
Hann segir að einnig megi greina stöðnun í fjölda starfsmanna í iðnaðargreinum eftir talsvert mikinn vöxt frá árinu 2021. Svipaða þróun megi sjá í veltutölum greinarinnar.
Ingólfur segir að stöðnun í iðnaði hafi mikil áhrif á hagkerfið þar sem iðnaður sé umfangsmikill. Iðnaðurinn skapi um fjórðung landsframleiðslunnar og innan hans starfi einn af hverjum fjórum á vinnumarkaði.
Ingólfur segir það vera áhyggjuefni að hér sé mikil verðbólga og lítill sem enginn hagvöxtur. Seðlabankinn berjist við verðbólgu með háum vöxtum sem dragi úr hagvexti. Þessi barátta gæti dregið hagkerfið niður og gert viðsnúning úr stöðnun í vöxt erfiðan.
Hann segir þetta kalla á aðgerðir af hálfu stjórnvalda. „Mikilvægt er að stjórnvöld skapi skilyrði vaxtar fyrir iðnaðinn og atvinnulífið allt til þess að bæta efnahagsleg lífskjör hér á landi,“ segir Ingólfur. Að hans mati þarf að draga úr takmörkunum á framboðshlið hagkerfisins sem dragi úr framleiðni og veiki samkeppnisstöðu efnahagslífsins.