Hvítabandið Borgaryfirvöld vilja ekki leyfa eiganda hússins að rífa það og endurbyggja með sama útliti. Eigandinn vill rifta kaupsamningi við ríkið.
Hvítabandið Borgaryfirvöld vilja ekki leyfa eiganda hússins að rífa það og endurbyggja með sama útliti. Eigandinn vill rifta kaupsamningi við ríkið. — Ljósmynd/Ríkiskaup
Niðurstaða skipulagsfulltrúa Reykjavíkur um að synja eiganda húss Hvítabandsins við Skólavörðustíg um leyfi til að rífa húsið og endurbyggja með sama útliti var staðfest á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur í síðustu viku

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Niðurstaða skipulagsfulltrúa Reykjavíkur um að synja eiganda húss Hvítabandsins við Skólavörðustíg um leyfi til að rífa húsið og endurbyggja með sama útliti var staðfest á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur í síðustu viku. Á fundinum var lagt fram málskot eiganda hússins en ítarleg greinargerð hans breytti ekki niðurstöðu borgaryfirvalda. Eigandinn hyggst leita réttar síns vegna málsins.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í mars síðastliðnum sendu eigendur hússins á Skólavörðustíg 37, sem jafnan er kennt við Hvítabandið, fyrirspurn til borgarinnar um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar. Í henni fólst að rífa húsið og endurbyggja með sama útliti en nýrri útfærslu á kvistum. Því hafnaði skipulagsfulltrúi og lagði til að eigandinn myndi skoða hvað hægt sé að gera til að halda húsinu og finna því einhverja starfsemi sem krefst ekki niðurrifs.

Árið 2023 auglýsti ríkið húsið til sölu og festi félagið SK37 kaup á því fyrir 496 milljónir króna. Stjórnarformaður þess er Lýður Guðmundsson, gjarnan kenndur við Bakkavör. Hugmyndir nýs eiganda gerðu ráð fyrir að á fyrstu hæð hússins ásamt kjallara yrðu innréttaðir veitingastaðir og á 2. hæð listagallerí. Á þriðju og fjórðu hæð yrðu innréttaðar íbúðir.

Við skoðun kom í ljós að húsið var án járnbendingar í berandi út- og innveggjum. Að auki sýndu sýni sem tekin voru að steypa hússins var mjög léleg. Var því ákveðið að óska leyfis til að rífa húsið og byggja eins hús á lóðinni. Minjastofnun gerði ekki athugasemdir við þessi áform.

Í umsögn skipulagsfulltrúa kemur fram að hús Hvítabandsins hafi listrænt gildi sem steinsteypuklassík og menningarsögulegt gildi sem tengist heilbrigðismálum á Íslandi. Húsið sé áberandi og mikilvægt í sögu Reykjavíkur.

Eigandi Hvítabandsins gerir margvíslegar athugasemdir við málsmeðferð skipulagsfulltrúa í greinargerð. Segir þar meðal annars að ósamræmis gæti um upprunalega nýtingu hússins. Skipulagsfulltrúi tali um að það hafi verið byggt sem sjúkrahús en í gögnum sem fylgdu kaupsamningi um sölu hússins segir að það hafi verið byggt sem íbúðarhús. Þá sé jafnframt ósamræmi um það hvort húsið sé verndað eður ei.

Algjör pattstaða virðist vera með húsið að því er segir í greinargerðinni. Ráðast þarf í miklar framkvæmdir og endurbætur á því, meðal annars í kjallara og þaki og viðgerð eða endurgerð á kvistum. „Húsnæðinu hefur hrakað verulega í notkunarleysi undanfarinna ára. Það er alveg ljóst að núverandi ástand húsnæðisins er óviðunandi og heilsuspillandi,“ segir þar.

Kveðst eigandi telja að ekki fáist leyfi til neinnar nýtingar hússins nema það verði lagað. „Hin neikvæða umsögn byggist helst á sögulegum ástæðum, og þannig lagst gegn því að breyta húsnæðinu í almennar íbúðir, þrátt fyrir að það virðist hafa verið upphafleg notkun hússins. Einnig er með sömu sögulegu rökum lagst gegn því að starfrækja veitingasal á jarðhæð – sem aftur virðist hafa verið til staðar þegar þarna var starfrækt sjúkrastofnun. Þetta rekur sig allt hvað á annars horn.“

Að síðustu segir að ef beiðni eiganda sé hafnað verði hann að leita réttar síns. „Það er fátt annað í stöðunni fyrir umsækjanda en að krefja seljanda um skaðabætur og rifta kaupsamningi um eignina því hún virðist, eins og staðan er nú, ekki nothæf til neins nema standa ónotuð þar til hún hrynur.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon