Fyrirspurnir Kristrún Frostadóttir.
Fyrirspurnir Kristrún Frostadóttir. — Morgunblaðið/Karítas
Veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar hvílir ekki á þeim fræðilega grunni sem sumir stuðningsmenn þess hafa látið í veðri vaka, ef miðað er við svör Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi síðdegis í gær

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar hvílir ekki á þeim fræðilega grunni sem sumir stuðningsmenn þess hafa látið í veðri vaka, ef miðað er við svör Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi síðdegis í gær.

Þar sagði hún að auðlindarentan væri „að einhverju leyti huglægt mat“, en fór að öðru leyti ekki út í hagfræðilegan grunn hennar.

Yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar með frumvarpi um hækkun veiðigjalda er að tryggja sanngjarna, réttláta og eðlilega hlutdeild auðlindarentu í sjávarútvegi.

Hanna Katrín og hagfræðin

Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður sjálfstæðismanna spurði Kristrúnu út í orð Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra, sem í liðinni viku bar „hagfræðina“ fyrir áformum sínum. Þá sagði hún í ræðustól á Alþingi að „auðlindarenta, innan skynsamlegra marka – sirka 50% talar hagfræðin um – skaðar ekki samkeppnishæfni“.

Því spurði hún Kristrúnu, sem er hagfræðingur, til hvaða hagfræðilegu greininga væri þar vísað, hvaða auðlindarentu, 50% af hverju og hver væri upphæð ætlaðrar auðlindarentu.

Kristrún minnti á að núverandi kerfi væri arfur frá fyrri ríkisstjórn.

„Veiðigjaldið, eins og það er reiknað í dag, er ekki fengið í einhverjum dæmibókum eða stærðfræðibókum eða auðlindarentubókum eða hagfræðibókum. Þetta er mat.“

Hún sagði að þeir sem þekktu til stofns veiðigjaldsins vissu „að þar eru fyrst og fremst matskennd atriði“. Veiðigjaldafrumvarpið miðaði að því að fá skýrara mat á hver undirliggjandi verðmæti aflans væru.

Sérstakar spurningar og svör

„Auðlindarentan – já, að einhverju leyti er hún huglægt mat. En það þarf ekki annað en að skoða umframarðsemi í sjávarútvegi […] til að átta sig á því að það er auðlindarenta í sjávarútvegi,“ sagði Kristrún.

Að öðru leyti svaraði hún ekki um hina hagfræðilegu þætti, en sagði að sér þætti „þessi spurning sérstök“.

Hildur svaraði að sér þættu svör forsætisráðherra ekki minna sérstök.

„Þar voru engin svör við fyrirspurnum mínum – engin. Nema að jú, vissulega er þetta huglægt. Gott og blessað að þetta sé huglægt. Er þá ekki heiðarlegra að viðurkenna það í staðinn fyrir að nota auðlindarentu sem rök fyrir því að þetta muni ekki hafa nein áhrif á samkeppnishæfni? Þetta eru rökin sem er ítrekað haldið fram hér. Og svo, þegar maður spyr: Nú, ókei, hver er auðlindarentan? – Já, það er auðvitað margt í mörgu. Sérstök spurning.“

Höf.: Andrés Magnússon