Halla Hrund Logadóttir
Halla Hrund Logadóttir
Greinin fjallar um meiri háttar óvissu í alþjóða- og efnahagsmálum eftir árás Bandaríkjanna á kjarnorkuinnviði Írans.

Halla Hrund Logadóttir

Átök milli Írans og Ísraels og árás Bandaríkjanna á kjarnorkuinnviði Írans síðastliðna helgi hafa skapað mikla óvissu um þróun olíuverðs. Olíuverð á heimsmarkaði hefur þegar hækkað um 10% frá því að átökin hófust og yfir 15% í júnímánuði. Hækkanir munu svo líklega halda áfram næstu daga, þar sem fjárfestar óttast röskun á olíuflutningum, sérstaklega ef Hormuz-sundi verður lokað eða umferð um það takmörkuð.

Enginn veit hver þróunin verður. Þó er ljóst að hækkun olíuverðs hefur nú þegar aukið óvissu um stöðu efnahagsmála og veikt forsendur fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026-2030.

Eldsmatur verðbólgunnar

Olía er grunnkostnaður í flutningum, framkvæmdum og innflutningi. Ef olíuverð hækkar eykst rekstrarkostnaður fyrirtækja í nánast öllum greinum svo sem í landflutningum, sjóflutningum, byggingariðnaði, þjónustu. Þetta leiðir til hærra verðs á vörum og þjónustu, bæði beint og óbeint í gegnum aðfangakeðjur, sem ýtir undir verðbólgu.

Í ljósi atburða síðustu daga og vikna eru miklar líkur á að verðbólga verði yfir þeim spám sem fjármálastefna og fjármálaáætlun hins opinbera byggja á. Afleiðingin verður þá líklega sú að Seðlabankinn bregðist við með því að halda háum stýrivöxtum lengur en ætlað var, sem myndi hafa verulega neikvæð áhrif á heimili og fyrirtæki í landinu.

Útgjaldaþrýstingur á ríkissjóð

Ríkið er stór kaupandi og framkvæmdaaðili. Verðhækkanir á efni, orku og þjónustu þýða hærri kostnað fyrir ríkið í öllum helstu rekstrarliðum. Þetta skapar útgjaldaþrýsting og hættu á að útgjöld ríkisins (t.d. bætur sem tengdar eru vísitölu) aukist umfram áætlanir. Afleiðingin verður aukinn halli ríkissjóðs og erfiðleikar við að ná markmiðum um lækkun skuldahlutfalls hins opinbera.

Deilur um veiðigjald í skugga heimsátaka

Á meðan sprengjum er varpað á kjarnorkuinnviði Írans og heimshagkerfið titrar, ríkja deilur á Íslandi um fyrirkomulag veiðigjalda. Sjávarútvegurinn yrði illa fyrir barðinu á mikilli hækkun olíuverðs og óvissu um þróun á mörkuðum sem horfa verður til. Áætlað er að olíukostnaður nemi allt að 15-30% af rekstrarkostnaði sjávarútvegsfyrirtækja eftir skipastærð og tegund veiða. Langvarandi olíuverðshækkanir geta þannig dregið úr rekstrargrundvelli margra útgerða og haft neikvæð áhrif á samkeppnishæfni greinarinnar í alþjóðlegum samanburði. Þetta þurfum við að hafa í huga við mikilvæga umræðu um veiðigjöld fyrir samfélagið sem nú eru rædd í þinginu. Þjóðin á að fá aukinn og sanngjarnari hlut í arði auðlinda sjávar á sama tíma og tekið er tillit til rekstrarskilyrða sjávarútvegs.

Áhrif á hagvöxt

Ýmsir hagfræðingar hafa lýst efasemdum um raunhæfni hagvaxtarspár fjármálastefnunnar næstu ár (2,5-2,8%). Samkvæmt spá Hagstofunnar eru horfur á 1,8% hagvexti í ár og að hann verði drifinn áfram af aukinni innlendri eftirspurn. Árið 2026 telur Hagstofan að verg landsframleiðsla aukist um 2,7%, einkum vegna bata í utanríkisviðskiptum og aukinnar einkaneyslu. Árið 2027 er reiknað með 2,8% hagvexti. Ljóst er að veruleg hækkun á olíuverði auk áframhaldandi óvissu í alþjóðamálum mun draga úr bjartsýni og vilja til fjárfestinga. Sömuleiðis gæti óhjákvæmileg hækkun á flugfargjöldum haft áhrif á stöðu ferðaþjónustunnar.

Öldrun þjóðarinnar: Óumflýjanlegur kostnaðarauki

Lýðfræðilegar breytingar eru mikil áskorun fyrir öll vestræn ríki. Í því samhengi stendur íslenska ríkið frammi fyrir hratt vaxandi útgjöldum vegna öldrunar þjóðarinnar. Þessi áskorun hefur fengið of litla athygli hingað til einhverra hluta vegna. Tölurnar tala sínu máli og útgjöld vegna heilbrigðis-
og umönnunarþjónustu munu óhjákvæmilega aukast stórlega á næstu árum og auka enn frekar útgjaldaþrýsting ríkissjóðs.

Varnarmál: Viðbúnaður kostar sitt

Á sama tíma standa stjórnvöld
einnig frammi fyrir vaxandi útgjöldum til varnarmála vegna aukinnar spennu í alþjóðamálum. Ríkisstjórnin hefur þegar tilkynnt aukin fjárútlát til varnarmála á sama tíma á sama tíma og fjármögnun þeirra er óljós.

Mikilvægt verður því að fylgjast með ráðstefnu NATO sem hefst í dag og lýkur á morgun, miðvikudaginn 25. júní. Umræðuefnið verður einkum aukin útgjöld aðildarríkja NATO til varnarmála (5% viðmið), og vitanlega gjörbreytt staða mála í Mið-Austurlöndum.

Sýnum ábyrgð

Nú er þörf á samstöðu. Til að tryggja trúverðugleika fjármálastefnu, og svo fjármálaáætlunar 2026-30, þarf ríkisstjórnin að tryggja að áætlanagerð hins opinbera byggist á varfærnum forsendum og fyrirsjáanleika. Þá þarf að sýna því skilning að lykilatvinnugreinar þjóðarinnar, s.s. sjávarútvegur og ferðaþjónusta, búa við meiri óvissu en nokkurn hefði grunað fyrir aðeins fáeinum vikum.

Í ljósi stríðsátaka, hækkunar olíuverðs og viðkvæmrar stöðu efnahagsmála þarf nánara samtal og samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu, hvort heldur sem er um veiðigjöld, varnarmál eða forsendur fjármála ríkisins næstu ár.

Höfundur er þingmaður Framsóknar.

Höf.: Halla Hrund Logadóttir