
Baksvið
Þóroddur Bjarnason
tobj@mbl.is
Vöntun hefur verið á hlutlægum mælikvörðum til að auðvelda sveitarfélögum að taka betri og skilvirkari ákvarðanir, byggðar á gögnum, við stjórnun barnaverndarþjónustu að sögn Maríu Rósar Skúladóttur, ráðgjafa hjá þekkingarfyrirtækinu KPMG og félagsráðgjafa.
María, sem áður starfaði sem stjórnandi í velferðarþjónustu, kynnti í vikunni nýtt mælaborð sem KPMG hefur hannað. María hefur, ásamt Hildi Láru Jónsdóttur, borið hitann og þungann af þróuninni sem staðið hefur allt þetta ár.
Rauntímaupplýsingar
Eins og María útskýrir í samtali við Morgunblaðið er hlutverk mælaborðsins m.a. að auka gagnsæi í starfsumhverfi barnaverndarþjónustu og gefa rauntímaupplýsingar um fjölda og stöðu barnaverndarmála og um álag starfsmanna.
Þróun lausnarinnar var unnin í nánu samstarfi við barnaverndarþjónustu Suðurnesjabæjar sem er fyrsta sveitarfélagið sem tekur mælaborðið í notkun.
„Það skortir yfirsýn í málaflokkum félagsþjónustu á íslandi. Það fara gríðarlegir fjármunir í félagsþjónustu sveitarfélaga á hverju ári, eða um 100 milljarðar króna. 10% af því fara í málefni barna og ungmenna,“ segir María.
Hún segir að málaflokkurinn sé gríðarlega viðkvæmur og málsmeðferð römmuð inn í lög.
„Í mælaborðinu má m.a. sjá hvað þarf að gera betur, hvar málin eru stödd í kerfinu, hver eru komin á tíma og hve mörgum málum starfsmenn eru að sinna.“
Fjórðungur tímans
Hún bætir við að evrópskar rannsóknir sýni að aðeins um fjórðungur af tíma starfsmanns í félagsþjónustu fari í að sinna því sem mestu máli skipti – tengslum og samskiptum við þjónustuþega.
„75% af tíma fólksins fara í skriffinnsku og ferladrifin verkefni. Tímanum er því illa varið og þar með er fjármunum sóað.“
María segir að með innleiðingu mælaborðsins sé hægt að auka hina mannlegu tengingu og samskipti og minnka skriffinnskuna. „Þetta er hluti stafrænnar umbreytingar í velferðarþjónustu sem setið hefur eftir. Það er mitt markmið að koma henni af stað af auknum krafti,“ segir María.
Eins og fyrr sagði er lausnin komin í notkun í Suðurnesjabæ. „Mælaborðið getur nýst öllum sveitarfélögum á landinu,“ segir María að lokum.