Við Djúp Sundlaugin í Reykjanesi á sér langa sögu. Myndin er líklega tekin á fjórða áratug síðustu aldar. Auk 100 ára afmælis skólans eru níutíu ár síðan héraðsskólinn var stofnaður þar.
Við Djúp Sundlaugin í Reykjanesi á sér langa sögu. Myndin er líklega tekin á fjórða áratug síðustu aldar. Auk 100 ára afmælis skólans eru níutíu ár síðan héraðsskólinn var stofnaður þar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margir kannast við gömlu útisundlaugina í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Ekki einungis fólk með tengingar við Vestfirðina heldur einnig vegfarendur í Djúpinu. Sundlaugin á aldarafmæli í sumar. Í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá því að…

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Margir kannast við gömlu útisundlaugina í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Ekki einungis fólk með tengingar við Vestfirðina heldur einnig vegfarendur í Djúpinu. Sundlaugin á aldarafmæli í sumar.

Í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá því að steinsteypt sundlaug var byggð í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, og 91 ár frá því að skólahald hófst þar, verða afhjúpuð tvö söguskilti í Reykjanesi laugardaginn 5. júlí.

Athöfnin hefst klukkan 15 og í tilkynningu kemur fram að öllum sé velkomið að vera viðstaddir og þiggja veitingar.

Afkomendur áttu hugmyndina

Að verkefninu standa afkomendur Aðalsteins Eiríkssonar og Bjarnveigar Ingimundardóttur, fyrstu skólastjórahjóna í Reykjanesi (1934-1944), og Páls Aðalsteinssonar og Guðrúnar Hafsteinsdóttur skólastjórahjóna (1952-1966). Áttu afkomendurnir hugmyndina að því að minnast aldarafmælisins.

Sundkennsla var í Reykjanesi allt frá fyrri hluta 19. aldar, fyrst í torflaug, en steinsteypta sundlaugin var byggð 1925 og stækkuð tvisvar á næstu árum. Sundlaugin hefur í gegnum árin verið hituð með sjálfrennandi heitu vatni sem annars rynni ónýtt til sjávar. Reykjanesskóli var héraðsmiðstöð við Ísafjarðardjúp í meira en hálfa öld, frá því að skólinn var stofnaður árið 1934 og þar til skólahald lagðist af árið 1991. Reykjanesskóli var heimavistarskóli og mótaði náttúrufar á Reykjanesi, sem og jarðhitinn sem þar er að finna, allt skólastarfið.

Söguskiltin um sundlaugina og skólann í Reykjanesi verða við flötina neðan við skólann. Sögumiðlun kemur að verkefninu ásamt styrkveitendunum Uppbyggingarsjóði Vestfjarða, Háafelli, HS Orku og Ísafjarðarbæ.

Reykjanes

Í sumar á útisundlaugin við gamla héraðsskólann í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp aldarafmæli. Er þar átt við steinsteyptu laugina

Auk þess eru 90 ár síðan skólinn hóf göngu sína en kennslu við héraðsskólann var hætt árið 1991

Sundlaugin var tvívegis stækkuð eftir byggingu hennar árið 1925. Hún er 50 x 12,5 m í dag

Björk Pálsdóttir hefur umsjón með verkefninu fyrir hönd afkomenda og Ólafur J. Engilbertsson fyrir Sögumiðlun

Söguskiltunum verður komið fyrir í Reykjanesi með viðhöfn hinn 5. júlí

Höf.: Kristján Jónsson