Samvinna Sprengjuvél af gerðinni B-2 sést hér taka eldsneyti á lofti.
Samvinna Sprengjuvél af gerðinni B-2 sést hér taka eldsneyti á lofti. — AFP/Pentagon
Loftárásir Bandaríkjamanna á kjarnorkuinnviði í Íran voru tryggðar með mikilli samræmingu ólíkra vopnakerfa og stoðflugvéla sem meðal annars beittu blekkingaleik til að koma í veg fyrir að loftvarnasveitir klerkastjórnarinnar gætu brugðist við með viðeigandi hætti

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Loftárásir Bandaríkjamanna á kjarnorkuinnviði í Íran voru tryggðar með mikilli samræmingu ólíkra vopnakerfa og stoðflugvéla sem meðal annars beittu blekkingaleik til að koma í veg fyrir að loftvarnasveitir klerkastjórnarinnar gætu brugðist við með viðeigandi hætti. Herstjórnendur vestanhafs þurftu einnig að beina athygli flugáhugamanna í ranga átt á meðan vopnaðar sprengjuvélar héldu óséðar upp í árásarflug sitt. Áhugamenn þessir fylgjast gjarnan grannt með ferðum hervéla og greina frá á samfélagsmiðlum. Sérfræðingar í hernaði segja leikinn hafa gengið upp eins og í sögu – Íranar hleyptu ekki af einu einasta skoti í átt að vélunum.

Blekkingaleikurinn hófst að líkindum með orðum Bandaríkjaforseta þegar hann sagðist myndu gefa sér tvær vikur til að ákveða hugsanlegar hernaðaraðgerðir gegn Íran. Opinberlega áttu ummælin að skapa svigrúm til samninga, en nú virðast þau fremur hafa fallið í þeim tilgangi að beina kastljósi heimsins frá yfirvofandi loftárás.

Eftir að skipun var gerð um árás héldu tveir hópar af langdrægum B-2-sprengjuflugvélum af stað frá Whiteman-herflugvelli í Missouri-ríki. Öðrum hópnum, sem flogið var í vestur og í átt að herstöð á Kyrrahafi, var ætlað að fanga athygli flugáhugamanna og fjölmiðla um leið en hinn hópurinn hélt í austurátt til árásar.

Árásarhópurinn hélt fjarskiptanotkun í algjöru lágmarki og þurftu flugmenn því að treysta á þjálfun sína og reynslu, meðal annars þegar eldsneyti var tekið minnst fjórum sinnum í lofti, en þetta er næstlengsta árásarferð B-2 frá upphafi. Var það einungis í kjölfar hryðjuverksins mikla 11. september 2001 sem B-2 vélar fóru í lengri árásarferð og var það þá til að sprengja upp skotmörk innan landamæra Afganistans.

Mikil samræming vopnakerfa

Alls tóku nærri 150 flugvélar þátt í aðgerðinni, þ.e. sprengju-, orrustu- og stoðflugvélar. Herstjórn Bandaríkjanna segir nærri 30 eldsneytisvélar hafa verið til taks og/eða notaðar á meðan aðgerðin stóð yfir og voru orrustuþoturnar af gerðunum F-35, F-22, F-16 og F-15. Hlutverk þeirra var einkum að tryggja greiða leið í átt að skotmarkinu og bregðast við hugsanlegum ógnum af hendi Írana. Alls var nærri 80 snjallsprengjum sleppt í árásinni, þ. á m. frá kafbáti.

Höf.: Kristján H. Johannessen