Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Íslandsmót fullorðinna og ungmenna í hestaíþróttum fer fram á Brávöllum á Selfossi 26.-29. júní og að því loknu verður landsliðshópurinn vegna Heimsmeistaramóts íslenska hestsins 4.-11. ágúst í Sviss valinn og hann síðan tilkynntur 11. júlí.
Tólf knapar héðan keppa í fullorðinsflokki á HM. Fimm þeirra eiga titil að verja og hafa því tryggt sér keppnisrétt að öllu óbreyttu. Sigurbjörn Bárðarson landsliðsþjálfari bendir samt á að hann þurfi einnig að skoða þá á Íslandsmótinu. „Ég þarf að samþykkja að hestarnir þeirra standi sig, en síðan þarf ég að velja sjö knapa til viðbótar.“ Þar að auki verði fimm knapar valdir í ungmennaflokki og hafi Hekla Katharína Kristinsdóttir landsliðsþjálfari ungmenna úr fjölmennum hópi að velja.
Margslungið val
Frá því í lok apríl hafa þrjú alþjóðleg mót með alþjóðlegum dómurum auk innlendra verið haldin. Það er Reykjavíkurmótið, sem er fjölmennasta Reykjavíkurmót sem haldið hefur verið, Geysismótið og Selfossmótið. Frammistaða á þessum mótum er höfð til hliðsjónar við val landsliðsmanna en árangurinn á Íslandsmótinu ræður úrslitum. „Nokkrir kandídatar hafa spjarað sig vel og eru líklegir en ég ætlast til að þeir mæti á Íslandsmótið og sýni hvað þeir geta í keppni þeirra bestu,“ segir Sigurbjörn. Tveir til fimm geti komið til greina í sömu keppnisgreinar og að mörgu þurfi að hyggja. „Ég vil etja þeim saman til að sjá hver þeirra sé líklegastur til að ná sem bestum árangri í Sviss.“ Því nægi ekki árangur og punktar í fyrrnefndum mótum.
Liðsheildin skiptir miklu máli enda liðsbikarar og verðlaun til efstu þjóða í húfi en Sigurbjörn minnir á að í grunninn sé ætíð um einstaklingskeppni að ræða. „Því reynum við alltaf að velja sigurvegara. Við reynum líka að kíkja eftir sigurvegurum í samanlögðum greinum og því þurfum við að hafa fjölhæfa knapa og hesta sem geta farið í allar greinar sem veita stig í samanlagðri keppni. Valið er því margslungið.“
Ekkert er sjálfgefið á HM. Sigurbjörn segir að til dæmis Þjóðverjar, Danir, Svíar og Svisslendingar séu mjög sterkir og fyrir tveimur árum hafi austurrísk stúlka komið á óvart og náð gullinu í 100 metra skeiði, en flestir höfðu bókað íslenskan sigur. „Það er ekkert öruggt,“ áréttar Sigurbjörn.
Sigurbjörn er reyndasti og sigursælasti knapi landsins. Hann var tekinn inn í Heiðurshöll Íþrótta- og ólympíusambands Íslands í ársbyrjun og hefur verið landsliðsþjálfari síðan 2018. „Öll gull landsliðsmanna standa upp úr,“ segir hann um þjálfaraferilinn. Árangurinn hafi verið góður og því hafi kröfurnar aukist ár frá ári. „Ég trúi alltaf á verkefnið og horfi bjartsýnn fram á veg. Við eigum firnasterka knapa og unglinga- og nýliðastarfið er gífurlega sterkt. Við erum til mikillar fyrirmyndar í allri uppbyggingu æskulýðsstarfsins.“