Ríkissjóður hefur endurgreitt sveitarfélögum tæplega 12,8 milljarða króna á síðustu fimm árum vegna fjárhagsaðstoðar sem veitt var útlendingum sem hér dvelja. Hæsta uppæðin var greidd árið 2023 þegar ríkið innti af hendi 4.647 milljónir, en næsthæsta fjárhæðin var greidd í fyrra, 3.395 milljónir

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Ríkissjóður hefur endurgreitt sveitarfélögum tæplega 12,8 milljarða króna á síðustu fimm árum vegna fjárhagsaðstoðar sem veitt var útlendingum sem hér dvelja. Hæsta uppæðin var greidd árið 2023 þegar ríkið innti af hendi 4.647 milljónir, en næsthæsta fjárhæðin var greidd í fyrra, 3.395 milljónir. Sú tala kann þó að hækka, þar sem uppgjöri vegna þess árs er ekki að fullu lokið.

Svo segir í svari félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur alþingismanns Sjálfstæðisflokksins.

Greiðslurnar eru annars vegar vegna fjárhagsaðstoðar til útlendinga sem ekki eiga lögheimili hér á landi, en hins vegar til útlendinga sem átt hafa hér lögheimili skemur en tvö ár.

Í þeim tilvikum sem útlendingar eiga ekki lögheimili hér á landi hefur Reykjavíkurborg notið hæstu endurgreiðslnanna öll árin, ef undanskilið er árið 2019 þegar hæstu endurgreiðslurnar féllu Reykjanesbæ í skaut. Svipað er upp á teningnum þegar kemur að útlendingum sem lögheimili eiga hér á landi.

Palestínumenn skera sig úr

Þegar litið er til þjóðernis hinna erlendu styrkþega sem ekki eiga lögheimili á Íslandi sést að í fyrra skáru Palestínumenn sig mjög úr. Þeir hlutu tæplega 30% þeirra styrkja sem veittir voru. Í öðru sæti komu Sýrlendingar með tæp 14%, Venesúelabúar voru næstir með tæp 8% og Afganar skammt undan með tæp 7%.

Til viðbótar hefur fólk frá Lettlandi, Sómalíu, Litáen og Albaníu þegið fjárframlög. Athygli vekur að árið 2023 voru um 7% styrkþega með óþekkt ríkisfang.

Þegar kemur að þeim útlendingum sem átt hafa hér lögheimili skemur en tvö ár skera Úkraínumenn sig mjög úr, en greiðslur til þeirra námu tæpum 60% af heildinni á síðasta ári. Palestínumenn og Venesúelabúar komu þar næstir með tæp 10% hvorir.

Fram kemur í svari ráðherrans að hún hafi í hyggju að endurskoða endurgreiðslur ríkissjóðs til sveitarfélaga vegna fjárhagsaðstoðar til útlendinga, en gert sé ráð fyrir að sú vinna fari fram í samráði við sveitarfélögin.

„Mér finnst ráðherrann svara spurningunni um áform sín um að bregðast við þessu ákaflega dauflega. Ég vek athygli á því að Flokkur fólksins keyrði mjög á þessu málefni í aðdraganda síðustu kosninga, kostnaði við hælisleitendur og málaflokk útlendinga,“ segir Diljá Mist.

„Síðan þegar flokkurinn komst til valda er ekkert verið að gera í þessum málaflokki. Mér finnst þetta ótrúlega útvatnað svar. Loksins þegar þessi flokkur kemst til valda virðast hundar og kettir vera það eina sem hann hefur áhuga á. Mér sýnist flokkurinn ekki vera að gera neitt í þessum málaflokki,“ segir hún og nefnir að fullt tilefni sé til þess að grennslast frekar fyrir um hvað verið sé að gera til að gæta að því að skilyrði laganna um endurgreiðslu kostnaðar til sveitarfélaganna séu uppfyllt.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson