Undanfarna viku hefur frumvarp ríkisstjórnarinnar um tvöföldun á veiðigjaldi verið til umræðu í þingsal. Stjórnarandstaðan hefur reynt eftir fremsta megni að draga fram í dagsljósið hversu mjög málið er vanbúið og mikilvægi þess að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir áður en frumvarpið getur orðið að lögum. Stjórnarliðar hafa reynst óþreytandi í að úthrópa alla þá sem setja sig upp á móti málinu sem skósveina einhverrar andlitslausrar auðvaldsklíku eða andstæðinga lýðræðis. Skilaboðin, og þau hafa verið ítrekuð margoft, eru að kosningasigur veiti þeim skýlausan rétt til þess að leiða í lög hvað eina sem þeim dettur í hug, múðurslaust.
Sumir þessara þingmanna stjórnarmeirihlutans hafa að því er virðist gleymt því þegar þeir sjálfir voru í minnihluta. Svo mjög hefur fennt yfir að ætla mætti að áratugir væru liðnir, jafnvel hálf eilífð – að minnsta kosti á pólitískan mælikvarða. Vika er auðvitað langur tími í pólitík. Þess er skemmst að minnast að Sigmar Guðmundsson þingflokksformaður Viðreisnar tók 31 sinni til máls í umræðu um frumvarp þáverandi dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum árið 2022. Það frumvarp varð ekki að lögum á því þingi en engum datt í hug að saka þingmanninn um ólýðræðislega tilburði.
Munurinn þá og nú er sá að stjórnarandstaðan nú reynir að knýja fram málefnalega umræðu um frumvarp sem er vanhugsað, vanbúið og hefur verið gagnrýnt af fjölda aðila. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa rekið sjálfa sig út í horn, gert málið að einhvers konar mælistiku á eigið ágæti, skella skollaeyrum við allri gagnrýni og gera þeim upp annarlegan hug sem voga sér að benda á hina ótal vankanta sem á málinu eru. Að láta eins og réttmæt gagnrýni eigi ekki rétt á sér er ríkisstjórninni ekki til framdráttar. Þótt ofurtrú á eigin getu og ágæti einkenni orðræðu sumra stjórnarliða er rétt að gjalda varhug við því að gert sé lítið úr málflutningi stjórnarandstöðunnar, hún er málsvari stórs hluta kjósenda þótt í minnihluta sé. Þau ríki sem stunda slíkt eru hvorki til fyrirmyndar, né samboðin íslenskri lýðræðishefð.
Það er ekki umvöndunum stjórnarandstöðu um að kenna að þingið er í þeirri stöðu sem nú er uppi; að enn sjái ekki fyrir endann á þingvetri, að enn hafi mörg áherslumál ríkisstjórnarinnar ekki orðið að lögum. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Stjórnarliðar sniðu sér einfaldlega ekki stakk eftir vexti. Stór og veigamikil mál komu seint fyrir þingið, án samráðs, án nauðsynlegrar undirbúningsvinnu og án nauðsynlegra gagna. Og þrátt fyrir það allt er ætlast til þess að þau renni í gegn án umræðu, án athugasemda og án gagnrýni.
Það er skylda okkar í stjórnarandstöðu að spyrna við fótum þegar svona er ástatt á þingi.
Höfundur er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.