
Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Kristjana Hildur Gunnarsdóttir varð í öðru sæti annað árið í röð og fékk silfurverðlaun í flokki 50-54 ára á heimsmeistaramótinu í hyrox í Chicago í Bandaríkjunum um miðjan mánuðinn. Ásdís Guðnadóttir og María Ingimundardóttir urðu í þriðja sæti í parakeppni í flokki 60-69 ára og fóru kátar heim með bronsverðlaunin. „Við höfum sett stefnuna á HM í Svíþjóð að ári,“ segir María reynslunni ríkari.
Hyrox er keppni sem líkist crossfit að hluta og hefur notið æ meiri vinsælda víðs vegar um heim frá því fyrsta keppnin var haldin í Þýskalandi 2017, að sögn Maríu. Árangur á sérstökum hyrox-mótum veiti keppnisrétt á HM í lok hvers tímabils, en meistarakeppnin hafi fyrst verið haldið 2019 og síðan árlega nema 2020. „Á nýliðnu tímabili kepptu um 600 þúsund manns og um sex þúsund þeirra unnu sér keppnisrétt á HM í Chicago.“
Hlaup, þrek og kraftur
Keppni í hyrox er aldursflokkaskipt í tveimur hópum. Annars vegar er opinn flokkur og hins vegar svokallaður pro-flokkur, sem veitir keppnisrétt á HM. Keppnin er átta umferðir, 1.000 metra hlaup og sérstök æfing í hverri umferð. Keppendur vita hvaða æfingar eru í hverri umferð og geta því undirbúið sig samkvæmt því. Þátttakendur þurfa til dæmis að draga og ýta sleða með ákveðinni þyngd á, róa kílómetra í róðrartæki, gera hnébeygjur með sandpoka á öxlum, kasta þungum bolta 100 sinnum í spjald ofan höfuðs og svo framvegis. Hlaup, æfing, hlaup, æfing.
„Það þarf mikla hlaupagetu, styrk og úthald til þess að komast í gegnum þetta,“ segir María, sem var meðal annars öflug í handbolta á árum áður, en hefur auk þess látið til sín taka í blaki og golfi. „Ég hef gaman af öllum íþróttum, finn mér alltaf eitthvað í því efni og hleyp til dæmis mikið núna.“
Ekkert viðurkennt hyrox-mót hefur enn verið haldið á Íslandi og því fóru María og Ásdís á mót í Kaupmannahöfn í mars. „Þar sigruðum við í parakeppni í okkar aldursflokki og tryggðum okkur um leið þátttökurétt á HM,“ segir María. Bætir við að Ásta Katrín Helgadóttir og Árdís Lára Gísladóttir hafi keppt í sama aldursflokki í Köben og aftur í Chicago, þar sem þær urðu í 4. sæti. „Þær sigruðu á HM í fyrra og Kristjana Hildur er líka mjög öflug og hefur náð góðum árangri.“
Skokkhópur Fram æfir styrk, úthald og snerpu í æfingastöðinni UltraForm í Grafarholti einu sinni í viku. María bendir á að stöðin sé jafnframt hyrox-stöð eins og Crossfit Reykjavík í Faxafeni og fleiri stöðvar. „Þjálfari í últraformi, sem hafði keppt í hyrox, hvatti okkur til að prófa og það endaði með því að við skráðum okkur í mótið í Köben,“ segir María. Hún bætir við að þær hafi æft mjög vel og eftir sigurinn hafi ekki annað komið til greina en að fylgja honum eftir í Chicago.
„Gamla keppnisóða fólkið heldur áfram að keppa,“ heldur hún áfram. Fram undan séu utanvegahlaup og alls konar hlaup. „Við höfum alltaf verið duglegar í styrktarþjálfun enda á fólk að lyfta lóðum þegar það eldist. Við höldum áfram að hlaupa og finnum okkur væntanlega hyrox-mót í haust með það að markmiði að keppa á HM í Stokkhólmi næsta sumar.“