Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Frumvarp um breytingu á lögum um styrki til einkarekinna fjölmiðla var óvænt tekið á dagskrá Alþingis í gærmorgun til 2. umræðu. Umræðunni var þó frestað síðar um daginn og óljóst hvort ríkisstjórnin leggi áherslu á afgreiðslu þess.
Guðmundur Ari Sigurjónsson þingflokksformaður Samfylkingar hafði framsögu fyrir hönd meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar, sem leggur til að Alþingi lögfesti nær óbreytt frumvarp menningarmálaráðherra um eins árs framlengingu á stuðningi við einkarekna fjölmiðla, þar sem styrkjakerfið féll úr gildi um síðustu áramót.
Í rökstuðningi Guðmundar Ara kom fram að rétt væri að tryggja tímabundinn rekstrargrundvöll fjölmiðla meðan unnið væri að heildarendurskoðun laganna, sem Logi Einarsson menningarmálaráðherra hefur boðað í haust. Það ætti sérstaklega við um minni miðla á landsbyggðinni, að þeir ættu við bráðavanda að etja og kynnu jafnvel að leggja upp laupana ef styrkinn þryti um stundarsakir.
Samhliða er hámarkshlutfall styrkja til einstakra miðla lækkað úr 25% í 22%, sem Guðmundur Ari sagði til þess fallið að stuðla að „jafnari dreifingu“ og varaði við myndun „fréttaeyðimarka“ úti á landi, svæða þar sem engir staðbundnir miðlar gætu þrifist.
Efasemdir um breytingar
Ingibjörg Isaksen þingflokksformaður framsóknarmanna var fyrst til andsvara og sagði flokk sinn styðja styrkjakerfið, sem hann hefði komið á, og jafnframt væri honum annt um fjölmiðla í hinum dreifðu byggðum.
Hins vegar spurði hún hvort einhverjar greiningar lægju fyrir um áhrif lækkunar hámarksstyrkja. Fyrir lægi að lækkun á hámarksstyrkjum kæmi aðeins niður á tveimur stærstu einkamiðlunum, Árvakri (útgáfu Morgunblaðsins) og Sýn, sem væru einu einkamiðlarnir sem flyttu almennar daglegar fréttir.
Hún, líkt og fleiri stjórnarandstöðuþingmenn, dró jafnframt í efa að það lægi svo á að gera þessar breytingar sem ekki tækju gildi fyrr en á nýju ári fyrst heildarendurskoðun fjölmiðlalaga stæði fyrir dyrum í haust.
Ekki í samræmi við markmið
Snorri Másson þingmaður Miðflokksins flutti álit minnihluta nefndarinnar. Hann lýsti andstöðu minnihlutans við „illa rökstuddar breytingar“ í þá átt að lækka hámark styrkja; illskárra væri að halda óbreyttu ástandi þar til ráðist yrði í heildarendurskoðun laganna.
Gagnrýnt var að fyrirhuguð breyting væri rökstudd með nauðsyn þess að styðja við veikburða landsbyggðarmiðla sem þegar nytu tveggja ívilnana annarra, en þar fyrir utan samrýmdist það ekki uppgefnu markmiði laganna.
„Með þessu skrefi er ekki stutt við lýðræðislegt hlutverk fjölmiðla, eins og er markmið styrkjanna, og tæplega verður fallist á sjónarmið um að koma þurfi til móts við landsbyggðarmiðla með þessum tiltekna hætti.“
Bent var á að þessi millifærsla styrkja einkamiðla næmi aðeins um 0,3% rekstrartekna Ríkisútvarpsins, svo að hagræðing í ríkisrekstri væri veik röksemd fyrir þeirri breytingu, en ekkert horft til Rúv..
Breytingin fyrirsláttur
Þá drápu Snorri og fleiri þingmenn á hve annarlegt það væri að þessi lækkun hámarksstyrkja, sem aðeins hefði áhrif á tvo miðla, ætti sér stað eftir að Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, hefði haft í hótunum um slíkt vegna fréttaflutnings miðlanna. Þeir höfðu bæði fjallað um fjárhagslega hagsmuni hans í tengslum við stjórnarmál og ólögmæta viðtöku flokks hans á styrkjum úr ríkissjóði.
Sagði Snorri að í því ljósi væri fyrirhuguð breyting ríkisstjórnarinnar til stuðnings landsbyggðarmiðlum fyrirsláttur. Lítið kæmi í þeirra hlut, en skerðingin til stóru miðlanna næmi sem svaraði tveimur stöðugildum.