Taílenski herinn lokaði fyrir umferð fólks um landleiðina til Kambódíu í gær. Tugir ferðamanna strönduðu á helstu eftirlitsstöð Taílands á landamærum ríkjanna. Taíland hefur meinað fólki að fara landleiðina yfir landamærin í öllum sjö héröðum landsins sem liggja að þeim. Nemendur og fólk í leit að læknisþjónustu er undanskilið banninu.
Spenna hefur aukist á landamærum ríkjanna undanfarið en kambódískur hermaður lést þegar skærur brutust út á landamærunum í síðasta mánuði.
Ríkjunum tveimur kemur ekki saman um ákveðin svæði sem hafa verið þrætuepli milli þeirra síðan Suðaustur-Asía var undir yfirráðum Frakka á 20. öld.
28 manns hafa fallið frá árinu 2008 vegna deilna ríkjanna um landamærin. Þær hafa þó legið í dvala undanfarin ár og ekki hafði komið til átaka lengi þegar það gerðist í síðasta mánuði.
Pólitískt hneyksli
Málið hefur reynst Paetongtarn Shinawatra forsætisráðherra Taílands erfitt. Kallað hefur verið eftir afsögn hennar eftir að upptöku af símtali hennar við fyrrverandi leiðtoga Kambódíu, Hun Sen, var lekið. Hún er m.a. ásökuð um að hafa í því gert lítið úr eigin her og látið undan kröfum Kambódíumanna. Ekki bætir úr skák að Kambódía hefur bannað innflutning á olíu, ávöxtum og grænmeti frá nágrönnum sínum í vestri.
Landamæralögregla Taílands hefur ekki veitt upplýsingar um hvort landleiðin til Kambódíu verði opnuð á ný. Fjöldi ferðamanna fer milli ríkjanna á degi hverjum, auk þess sem margir innfæddir fara um landamærin daglega til að starfa í nágrannalandinu. floki@mbl.is