Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar á Alþingi hófu þingfund í gær á því að krefjast þess að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra drægi orð sín til baka um að málflutningur stjórnarandstæðinga í veiðigjaldamálinu væri í „falsfréttastíl“.
Ekki væri hægt að sitja undir slíku ámæli og tilgangslaust að leita samkomulags um þinglok meðan orðin stæðu óhögguð.
Það hefur forsætisráðherra ekki gert, enda haldin til Haag á leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins.
Svör stjórnarliða í þingsal voru ekki heldur til þess fallin að bera klæði á vopnin.
Raunar má segja að Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, hafi hellt olíu á eldinn þegar hann fór í pontu, ítrekaði orð um falsfréttir og sakaði stjórnarandstæðinga um að ástunda blekkingar.
Það var Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður sjálfstæðismanna sem fyrst hreyfði þessu í umræðum um fundarstjórn forseta, en í kjölfar hennar sigldu Bergþór Ólason þingflokksformaður Miðflokks og Ingibjörg Isaksen þingflokksformaður Framsóknar. Þau tóku undir orð Hildar, sögðu orð Kristrúnar og Sigurjóns til skammar og ekki til þess fallin að liðka fyrir samkomulagi um þinglok.
Þinglokaþreifingar hafa verið meðal þingflokksformanna og formanna flokka undanfarna daga, en sáralítið miðað eftir því sem næst verður komist.
Ummæli Kristrúnar
Ummæli forsætisráðherra féllu í Kastljósi Rúv. á mánudagskvöld:
„Ég hef upplifað það í þinginu, svo ég segi það bara alveg hreint út, að það hefur verið í falsfréttastíl hvernig umfjöllun um þetta mál hefur verið hjá minnihlutanum. Það er verið að hræra í pottunum til þess að skapa ótta, til þess að skapa óvissu.“