Stefnt er að því að leiðtogar Atlantshafsbandalagsríkjanna samþykki í dag stóraukin útgjöld til varnarmála, en leiðtogafundur NATO fer nú fram í Haag í Hollandi.
Munu ríkin samþykkja að auka bein útgjöld til varnarmála upp í 3,5% af vergri landsframleiðslu (VLF) fyrir árið 2035, en markmið bandalagsins nú er 2%. Þá verður 1,5% af VLF varið til uppbyggingar á innviðum sem einnig geta nýst til varna.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, fagnaði í gær hinu sögulega samkomulagi og sagði að Evrópa hefði „loksins vaknað“ í varnarmálum. Sagði hún nauðsynlegt að Evrópa næði að fæla Rússa frá því að ráðast á álfuna innan fimm ára.
Ummæli hennar féllu á sérstökum viðburði þar sem iðnaðurinn var í forgrunni og áhersla lögð á að auka samhæfingu varnartengds iðnaðar milli Evrópu og Norður-Ameríku. NATO, Evrópusambandið og iðnaðurinn vinna nú að mótun sameiginlegrar iðnaðarstefnu í tengslum við öryggismál.
Sagði von der Leyen einnig að framtíð Evrópu væri ekki bara rituð á vígvöllunum í Úkraínu heldur einnig í verksmiðjum þeirra sem sóttu fundinn.
Íslenskur og evrópskur iðnaður er reiðubúinn að bregðast við auknum fjárframlögum aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins (NATO) til varnarmála, meðal annars með aukinni framleiðslu, nýsköpun og uppbyggingu innviða. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í samtali við Morgunblaðið frá
Haag.
„Iðnaðurinn er vel í stakk búinn og hann náttúrlega er vanur því að auka sín umsvif og líka að draga saman seglin hratt eins og aðstæður krefja. Þannig að ég er þess fullviss að iðnaðurinn geti tekist á við aukna uppbyggingu innviða,“ segir Sigurður.
Á meðal ræðumanna á fundinum var Volodimír Selenskí forseti Úkraínu sem hvatti iðnaðinn til dáða.