Sigþór Sigurðsson
Sigþór Sigurðsson
Of litlu fé hefur verið varið til viðhalds og nýframkvæmda á vegakerfi landsins. Fjölmörg slys, jafnvel banaslys, hafa verið rakin til ástands vegar.

Sigþór Sigurðsson

Í tæpa tvo áratugi hefur allt of litlu
fé verið varið til viðhalds og nýframkvæmda á vegakerfi landsins. Við-
haldsskuldin sem hefur safnast upp frá aldamótum nemur á bilinu 250-300 milljörðum króna, á gengi dagsins í dag. Hefði reglubundnu viðhaldi og eðlilegum endurbótum verið sinnt eins og vera ber síðustu 20 árin, væri þessi upphæð töluvert lægri.

Vegirnir versna

Áformuð framlög til viðhalds vega næstu 15 árin eru talin verða um 256 milljarðar króna, eða um 13-17 milljarðar á ári, skv. skýrslu Samtaka iðnaðarins. Því er ólíklegt að fyrrnefnd 250-300 milljarða viðhaldsskuld muni lækka næstu 15 árin, þar sem árleg framlög munu líklegast ekki duga fyrir árvissri viðhaldsþörf. Í ljósi þessa meta Samtök iðnaðarins framtíðarhorfur þjóðvegakerfisins neikvæðar, sem þýðir á mannamáli að vegunum muni hraka enn frekar nema gripið verði í taumana.

Hættulegar aðstæður

Vondir vegir geta skapað hættulegar aðstæður fyrir vegfarendur. Þegar klæðing er orðin slitin eða bikblæðingar verða, þá minnkar gripið á yfirborði vegarins. Bílstjórar verða varir við hálku og geta misst stjórn á bílnum með ófyrirséðum afleiðingum. Þá þarf ekki að fjölyrða um hætturnar sem fylgja því að keyra í holur, sprungur eða skemmdir í vegum, en það getur hæglega valdið því að fólk missi stjórn á bílnum. Fjölmörg óhöpp og slys – jafnvel banaslys – hafa verið rakin beint til ástands vegar. Það eru slys sem hugsanlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir, að minnsta minnka verulega líkurnar á.

Verri akstursupplifun

Fyrir utan hættuna sem vondir vegir geta skapað, þá þykir fólki einfaldlega verra að aka eftir þeim. Ökumenn þurfa að vera meira á varðbergi en venjulega, jafnvel þó akstursaðstæður séu að öðru leyti góðar. Slíkt skapar streitu og álag á ökumenn, sem gerir ferðalagið sjálft óþægilegra og upplifun fólks af vegakerfinu verri en ella. Við eigum að geta treyst því að þessir grunninnviðir þjóðarinnar séu í lagi.

Tjón og skemmdir

Á hverju ári verða fjölskyldur og einstaklingar fyrir tjóni sem má rekja til ástands vega. Heimilisbíllinn verður fyrir hnjaski og þarf að fara á verkstæði. Því fylgir kostnaður, hvort sem það er beinn kostnaður við viðgerðina, greiðsla sjálfsábyrgðar til tryggingafélagsins eða hækkað iðgjald í kjölfar tjóns.

Allt til betri vegar

Lausnirnar á vanda vegakerfisins eru í sjálfu sér einfaldar, en þær eru fjárfrekar. Við verðum að stórauka fjárveitingar til vegagerðar, viðhalds og endurbóta til að geta lyft vegakerfinu okkar á hærra plan. Það margborgar sig að fjárfesta í vegunum og halda þeim almennilega við.

Meira malbik

Allt of margir vegir í þjóðvegakerfinu eru úreltir, m.t.t. umferðarþunga. Miklu fleiri kafla, þar sem nú er klæðing, þyrfti að malbika. Klæðing þolir ekki meiri umferð en 1500-2000 bíla á sólarhring og enn verr mikla þungaflutninga.

Margir vegir hringinn í kringum
landið eru einfaldlega löngu komnir á tíma. Nokkuð stór hluti vegakerfisins var lagður fyrir meira en hálfri öld og burðarlagið fyrir löngu orðið ónýtt. Það þarf að fjárfesta í endurbyggingu, leggja vegi sem standast kröfur samtímans og halda þeim vel við. Þannig og aðeins þannig fáum við örugga og góða vegi sem munu þjóna landsmönnum vel um ókomna tíð.

Lögum holurnar

Að undanförnu hefur fólk orðið vart við náunga á samfélagsmiðlum sem kallar sig Nicolas. Hann fer um landið og tekur mynd af holum og birtir. Hann hefur líka farið og merkt holur með því að setja upp skilti sem á stendur ¡Hola! Þá hefur verið sett upp kort þar sem hægt er að sjá allar tilkynningar um holur árin 2024 og 2025. Slóðin er www.map.is/hola Með þessu viljum við vekja athygli á ástandi vega og hvetja fólk um leið að tilkynna holur sem verða á vegi þeirra.

Í sumar holur hefur verið fyllt upp í með möl, aðrar lagaðar til með bráðabirgðamalbiki en enn er fjöldi vega illa farinn og hættulegur vegfarendum. Með því að tilkynna um holótta vegi setjum við þrýsting á stjórnvöld að finna lausn á vanda vegakerfisins. Lögum holurnar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Colas.

Höf.: Sigþór Sigurðsson