Oddur Ingimarsson
Oddur Ingimarsson
Ef frumvarp fjármálaráðherra verður að lögum mun örorkulífeyrir oft fara yfir fyrri laun sem mun stuðla að aukinni örorku í samfélaginu.

Oddur Ingimarsson

Ég hef fylgst vel með lífeyrismálum eftir að ég sat í 10 ár í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins. Í frumvarpi fjármálaráðherra nr. 587 um víxlverkun örorkulífeyrisgreiðslna er felld úr gildi heimild lífeyrissjóða til að lækka lífeyri vegna orkutaps (örorku) sjóðfélaga á grundvelli greiðslna frá TR. Mér er brugðið eftir að hafa kynnt mér áform fjármálaráðherra varðandi lífeyriskerfið.

Launamenn eru skyldugir til að greiða í lífeyrissjóð og njóta þeir lágmarkstryggingaverndar á grundvelli þess. Lágmarkstryggingavernd hækkaði síðast árið 2022 og fór almennt úr 56% í 72% af tekjum. Lágmarkstryggingavernd getur þó verið aðeins breytileg milli lífeyrissjóða. Þýðir það að lífeyrissjóður tryggir í sumum tilvikum einstaklingi, sem verður öryrki, 72% af tekjum á meðan orkutap varir. Til að fá fulla lágmarkstryggingavernd þarf viðkomandi að hafa verið samfellt á vinnumarkaði í tvö ár fyrir orkutap (fullur framreikningur) en annars eru greiðslur lægri. Auk greiðslna frá lífeyrissjóði á einstaklingur sem verður öryrki rétt á greiðslum frá TR.

Dæmi: Barnlaus einstaklingur sem býr einn og hefur 600.000 í tekjur (meðaltekjur sl. tveggja ára) greiðir 24.000 í lífeyrissjóð. Eftir skatta og lífeyrisgreiðslur standa eftir 456.549 kr. (reiknivél staðgreiðslu skatturinn.is). Ef viðkomandi einstaklingur verður öryrki þá verða greiðslur hans frá TR næsta haust í nýju lífeyriskerfi samtals 318.907 kr. Að auki fær hann 72% x 600.000 = 432.000 kr. frá lífeyrissjóði eða samtals 750.907 kr. (reiknivél lífeyris á TR.is). Ekki er dregið af honum í lífeyrissjóð og eru því tekjur eftir skatt 565.009 kr. Við það að verða öryrki hækka því ráðstöfunartekjur viðkomandi um 108.460 kr. eða 24%.

Einstaklingur sem verður öryrki 40 ára hefur sjálfur einungis safnað fyrir hluta af þeim örorkulífeyri frá lífeyrissjóði sem hann fær greiddan. Það stafar af því að lífeyrissöfnun hans hefur varað mun skemur en hjá einstaklingi sem fer á ellilífeyri 67 ára og fær hann einnig að jafnaði greiddan lífeyri mun lengur. Það sem upp á vantar í lífeyrisgreiðslum er greitt af öðrum sjóðfélögum sem þýðir að ellilífeyrisgreiðslur annarra sjóðfélaga lækka sem því nemur. Það að felld sé úr gildi heimild lífeyrissjóða til að lækka örorkulífeyri vegna grundvallargreiðslna frá TR mun einnig valda því að ellilífeyrir lækkar áþreifanlega.

Ljóst er að ef breytingar verða á lífeyrissjóðalögum í samræmi við framkomið frumvarp munu heildargreiðslur einstaklings vegna örorku frá TR og frá lífeyrissjóði hækka verulega og í fjölmörgum tilfellum verða hærri en fyrri laun viðkomandi. Óhjákvæmilega mun það hafa í för með sér aukna örorku í samfélaginu og lægri ellilífeyrisgreiðslur. Slík þróun mun líklega verða smám saman þar sem ferli endurhæfingar er oft langt. Afleiðingarnar munu því væntanlega koma fram á löngum tíma en þegar þær koma fram gæti reynst erfitt að snúa þróuninni við.

Tryggingaverndin ætti ekki að getað farið yfir 100% af fyrri tekjum þar sem slíkt skapar hvata sem ganga gegn markmiðum kerfisins. Nauðsynlegt er að greina áhrif frumvarpsins ítarlega og sýna fjölbreytt dæmi um hvernig breytingarnar snerta mismunandi hópa. Án slíkrar greiningar verður ekki unnt að meta kerfisbundin áhrif frumvarpsins og grípa til nauðsynlegra lagfæringa á því svo tryggingaverndin verði undir 100%.

Höfundur er læknir og viðskiptafræðingur.

Höf.: Oddur Ingimarsson