Vopnahlé Stjórnvöld í Íran efndu til sigurhátíðar í miðborg Teheran til þess að fagna vopnahléinu í gær.
Vopnahlé Stjórnvöld í Íran efndu til sigurhátíðar í miðborg Teheran til þess að fagna vopnahléinu í gær. — AFP/Atta Kenare
Vopnahlé Írans og Ísraels, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um seint í fyrrakvöld, hélt í gær, þrátt fyrir að bæði ríki sökuðu hitt um að hafa rofið það um morguninn. Stjórnvöld beggja ríkja lýstu yfir sigri í átökunum, sem stóðu yfir í 12 daga áður en vopnahléið tók gildi

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Vopnahlé Írans og Ísraels, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um seint í fyrrakvöld, hélt í gær, þrátt fyrir að bæði ríki sökuðu hitt um að hafa rofið það um morguninn. Stjórnvöld beggja ríkja lýstu yfir sigri í átökunum, sem stóðu yfir í 12 daga áður en vopnahléið tók gildi.

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanjahú, sagði í gærkvöldi að Ísraelar hefðu náð að koma í veg fyrir að Íranar fengju kjarnorkuvopn. „Við höfum stöðvað kjarnorkuáætlun Írans. Og ef einhver í Íran reynir að endurreisa hana munum við grípa til aðgerða af sömu einbeitingu, af sama ákafa, til að stöðva allar tilraunir til þess,“ sagði Netanjahú í ávarpi sínu til ísraelsku þjóðarinnar.

Eyal Zamir, yfirmaður ísraelska herráðsins, sagði í gær að herferð Ísraela gegn Íran væri ekki lokið, en að hún færi nú á annað stig. Sagði Zamir að nú myndu líða mörg ár áður en Íran gæti komið sér upp kjarnorkuvopnum.

Masoud Pezeshkian Íransforseti lýsti því yfir í gær að Íranar væru reiðubúnir að hefja aftur viðræður við Bandaríkin um framhald kjarnorkuáætlunar landsins. Sagði Pezeshkian hins vegar að Íranar myndu áfram halda fram „lögmætum rétti sínum“ til þess að nýta kjarnorku í friðsamlegum tilgangi.

Pezeshkian ræddi í gær símleiðis við sjeikinn Mohamed bin Zayed Al Nahyan, forseta Sameinuðu arabísku furstadæmanna, og bað hann að hafa milligöngu um samtal við Bandaríkjamenn. Bað Pezeshkian Nahyan að koma þeim skilaboðum áleiðis að Íran hefði aldrei sóst eftir kjarnorkuvopni og gerði það ekki nú.

Trump brást reiður við

Óvissa ríkti um morguninn um hvort vopnahléið héldi, eftir að fregnir bárust af því að Íranar hefðu skotið eldflaug á Ísrael eftir að vopnahléið tók gildi, á sama tíma og Ísraelsher var sagður hafa sent orrustuþotur til loftárása á Íran til að hefna fyrir árásina.

Trump Bandaríkjaforseti brást reiður við og beindi skömmum sínum að báðum ríkjum, bæði á samfélagsmiðli sínum Truth Social og blaðamannafundi á lóð Hvíta hússins. Sagði hann þar bæði ríki hafa staðið í átökum svo lengi að þau vissu ekki lengur „hvað í fjáranum“ þau væru að gera og beitti þar grófu blótsyrði á ensku. Trump hringdi í Netanjahú skömmu síðar og lagði fast að honum að hætta við loftárásina, og varð það raunin.

Stjórnvöld í Íran lýstu því yfir í kjölfar ummæla Trumps að þau myndu standa við vopnahléið svo lengi sem Ísraelar gerðu slíkt hið sama. Þá sögðust Ísraelar einnig vera reiðubúnir að standa við vopnahléið, en áskildu sér rétt til þess að bregðast hart við ef það yrði rofið.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson