Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
„Löggjöfina þarf að laga og fara í gegnum þetta lið fyrir lið. Einstaklingi þarf að vera frjálst að sækja um þá stöðu sem hann langar til, án þess að það hafi áhrif á störf hans á núverandi vinnustað,“ segir Katrín Óladóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Hagvangs.
Morgunblaðið leitaði álits hennar á því að nöfn umsækjenda um opinberar stöður séu birt almenningi og hvort það hafi áhrif á fólk úr atvinnulífinu að sækja um störf hjá hinu opinbera.
Tilefni spurningarinnar er að í hópi 22 umsækjenda um starf skrifstofustjóra Alþingis voru einungis opinberir starfsmenn og sjálfstætt starfandi ráðgjafar.
Hún segir að gæta þurfi þess að þeir sem vinna hjá hinu opinbera hafi ekki forgang að þeim störfum sem þar losna og varar við því að samþykkt séu lög sem geti ekki staðið undir sér og það sé rökstutt með samanburði við milljónaþjóðir.
Spurð um þau tilvik þar sem umsækjandi fær ekki starf sem hann sækir um og kærir það, segir Katrín að það sé líka bundið í lög.
„Það sama þarf að ganga yfir alla. Það þarf að auglýsa stöðu sem allir hafa tækifæri til að sækja um, en það má ekki flækja þetta með því að veita andsvör eða upplýsingar um alla aðra umsækjendur með því að hver og einn er með samanburð á sjálfum sér gagnvart hinum og við tekur 2-3 ára kæruferli með gríðarlegum kostnaði og fyrirhöfn.“
Hún segir að lögin kveði á um mjög stranga upplýsingaskyldu og hið opinbera þurfi að rökstyðja ráðninguna.
„Þess vegna er það orðið algengt í dag að umsækjandanum er svarað með rökstuðningi. Þessi lög fela það í sér að það er ekki vinnufriður vegna þessara kæra frá fólki sem reynir að sækja sér bætur fyrir að fá ekki þau störf sem sótt er um.“
Katrín segir að regluverkið sem ráðningarstofur vinni eftir sé miklu strangara en það var þegar lögin voru samþykkt og reynslan af núverandi fyrirkomulagi sýni að hæfir umsækjendur séu settir í þá stöðu að geta ekki sótt um starf hjá hinu opinbera.