Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Tvær áþekkar tillögur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um lækkun á álagningarhlutfalli fasteignaskatta voru felldar af meirihluta Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur í gær.
Markmið tillagna minnihlutaflokkanna var að fasteignagjöld stæðu í stað, þrátt fyrir um 10% hækkun fasteignamats í höfuðborginni.
„Það er full ástæða til að varast ákefð Samfylkingar í skattamálum þessi misserin,“ segir Hildur Björnsdóttir oddviti sjálfstæðismanna í samtali við Morgunblaðið.
„Ekki einungis munu borgarbúar horfa fram á fjórðu krónutöluhækkun sinna fasteignaskatta um næstu áramót, heldur hefur formaður flokksins nýverið boðað auðlindagjald á hitaveituna. Við leggjumst auðvitað alfarið gegn hugmyndum af þessu tagi en Samfylking er að okkar mati fyrir löngu komin með lúkurnar á olnbogadýpt ofan í buddur borgarbúa.“
Hún nefnir að undanfarinn áratug hafi skattbyrði á hvert heimili með tvær fyrirvinnur aukist um að meðaltali 700 þúsund krónur árlega í Reykjavík á föstu verðlagi.
„Allt gerist þetta á vakt Samfylkingar og það var komið gott fyrir löngu. Nú þarf að skapa svigrúm til skattalækkana í Reykjavík,“ segir Hildur.
Einar Þorsteinsson oddviti framsóknarmanna tekur í sama streng.
„Það er afar gagnrýnivert að skattfylkingin undir stjórn Heiðu Bjargar Hilmisdóttur skuli ekki sýna meginþorra borgarbúa þá mildi að frysta fasteignagjöldin á milli ára eins og nágrannasveitarfélögin hafa gert árlega. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart enda virðist Samfylkingunni í Reykjavík líða vel í faðmi Sósíalista og Vinstri grænna. Ég sakna þess að Flokkur fólksins hafi sjálfstæða skoðun í málinu en þau tóku ekki einu sinni til máls í umræðunni,“ segir Einar.