„Það er takmörkun á einu svæði hjá okkur hvað varðar aðkomu frá sjó, en það er Hornstrandafriðland. Það er eini staðurinn þar sem fóturinn hefur verið settur niður varðandi þetta,“ segir Sigrún Ágústsdóttir forstjóri Náttúruverndarstofnunar í samtali við Morgunblaðið. Hún var spurð hvort það samræmdist reglum að skemmtiferðaskip kæmu upp undir landsteina og ferjuðu fólk í land þar sem friðlýsing er í gildi, en eins og myndin sýnir er skemmtiferðaskip skammt undan landi í Dynjandisvogi. Á sínum tíma voru Dynjandi og aðrir fossar í Dynjandisá í Arnarfirði, ásamt umhverfi þeirra við Dynjandisvog, friðlýstir. Engar reglur takmarka slíkar heimsóknir af sjó, að Hornstrandafriðlandi undanskildu.