Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Miklar breytingar eru fyrirhugaðar á Lönguhlíð og Drápuhlíð í Reykjavík. Samþykkt var í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar á dögunum að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna í samræmi við forhönnun sem áður hafði verið kynnt í ráðinu.
Breyta á Lönguhlíð sunnan Miklubrautar í borgargötu í takt við hverfisskipulag fyrir Hlíðarnar sem nýlega var samþykkt. Auka á öryggi á hjólastíg við götuna, laga strætóstöð og auka umferðaröryggi.
Ráðist verður í þessar framkvæmdir samhliða því að Veitur hyggjast endurnýja allar lagnir í götunni. Lögð verður áhersla á svokallaðar blágrænar ofanvatnslausnir sem draga eiga úr álagi á núverandi fráveitukerfi og hreinsa ofanvatn.
Við sama tækifæri á að endurgera neðri hluta Drápuhlíðar. Þar verður bætt við gangstétt þeim megin sem hana hefur vantað. Íbúum var gefið tækifæri til að kjósa um tvær útfærslur.
Annars vegar að bílastæði yrðu samsíða akstursstefnu götunnar, jafn mörg og þau eru nú. Hins vegar að bílastæði yrðu samsíða akstursstefnu, gróður yrði aukinn og bílastæðum fækkað um 10%. Mikill meirihluti var fylgjandi fyrri útfærslunni, um 75% þeirra sem greiddu atkvæði.
Ekki var möguleiki að halda núverandi útfærslu því ská-bílastæði öðrum megin í götunni þykja ekki uppfylla nútímakröfur til umferðaröryggis né markmið um gönguvæna borg, að því er fram kemur í kynningu borgaryfirvalda.
Þessi útfærsla á Drápuhlíð gefur fyrirheit um það sem koma skal í hverfinu. Í kynningu borgarinnar segir að nýta eigi sama þversnið í nærliggjandi hliðargötum í Hlíðunum.
„Í öllum þessum breytingum er verið að bæta aðstæður fyrir gangandi og hjólandi og gera allt umhverfið öruggara og vistlegra. Aðdragandinn að þessu eru framkvæmdir Veitna á svæðinu og verið er að nýta ferðina og bæta umhverfið í leiðinni,“ sagði í bókun þáverandi meirihluta þegar forhönnun var kynnt í umhverfis- og skipulagsráði í byrjun febrúar.
Á fundi sama ráðs í liðinni viku var samþykkt að halda áfram með verkið. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks greiddu atkvæði gegn tillögunni og bókaði fulltrúi Framsóknar að hann væri ósáttur við að fækka ætti bílastæðum við Lönguhlíð.
„Mikil óánægja íbúa er í hverfinu vegna þessarar breytinga og kvarta þeir yfir litlu samráði þrátt fyrir yfirlýsingu um annað frá borgaryfirvöldum. Stofnað hefur verið til undirskriftasöfnunar af hálfu íbúa til að mótmæla fyrirhuguðum breytingum,“ sagði í bókuninni.