Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins fer fram í Haag í Hollandi í dag, og héldu þjóðarleiðtogar bandalagsríkjanna til borgarinnar í gær til þess að sækja hátíðarkvöldverð í boði Vilhjálms Alexanders Hollandskonungs þar sem fundurinn var formlega settur.
Gert er ráð fyrir að fundurinn verði sögulegur, en þar á að samþykkja umtalsverða hækkun á útgjöldum ríkjanna til varnarmála sem og til uppbyggingar á varnartengdum innviðum, og eiga útgjöldin samtals að nema 5% af vergri landsframleiðslu bandalagsríkjanna árið 2035.
Þessi hækkun er tilkomin að miklu leyti vegna þrýstings frá Donald Trump Bandaríkjaforseta,
sem hefur lengi haldið því fram að ríki Evrópu hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar í varnarmálum. Trump kom til Haag í gærkvöldi, en þetta er fyrsti NATO-fundur hans frá árinu 2019.
Friedrich Merz Þýskalandskanslari sagði í þýska þinginu í gær að hin fyrirhugaða útgjaldaaukning væri ekki bara hugsuð til þess að friða Trump, heldur væri hún nú nauðsynleg vegna þeirra ógnar sem Evrópu stafaði nú af Rússlandi. Sagði Merz að Rússar væru nú að ógna öryggi og frelsi allrar Evrópu með virkum hætti. „Við verðum að óttast að Rússland haldi stríði sínu áfram utan Úkraínu,“ sagði Merz.
Bætti hann við að leiðtogafundurinn í Haag yrði sögulegur og að markmið hans væri að tryggja friðinn í Evrópu fyrir kynslóðir framtíðarinnar.
Þýsk stjórnvöld tilkynntu á mánudaginn að þau hygðust auka útgjöld sín til varnarmála upp í 3,5% takmarkið árið 2029, en þýska þingið samþykkti fyrr á árinu breytingar á reglum sínum um skuldasöfnun ríkisins þegar kæmi að varnarmálum. Boris Pistorius varnarmálaráðherra sagði að skilaboð Þjóðverja á NATO-fundinum yrðu þau að varnar- og öryggismál væru nú aftur höfð í forgangi í Þýskalandi.
Stefnt að fundi með Selenskí
Trump Bandaríkjaforseti sagði í gær áður en hann hélt til Hollands að hann væri ánægður með hið fyrirhugaða loforð um að hækka varnartengdu útgjöldin upp í 5% markmiðið. „Það er gott. Það gefur þeim mun meiri kraft,“ sagði Trump og vísaði þar til ríkja Evrópu innan bandalagsins.
Trump sagði hins vegar spurður
hvort hann myndi standa við fimmtu grein Atlantshafssáttmálans, sem kveður á um að árás á eitt ríki teljist árás á þau öll, að það væri skilgreiningaratriði. „Það eru margvíslegar skilgreiningar á fimmtu greininni,“ sagði Trump og bætti við að hann væri staðfastur í því að Bandaríkin væru vinaríki Evrópuríkjanna.
Trump sagði einnig að hann myndi mjög líklega funda með Volodimír Selenskí Úkraínuforseta á hliðarlínum fundarins í dag, en að það væri þó ekki öruggt.