Göngustígur Íbúar kalla eftir þrengingu umferðar um götuna.
Göngustígur Íbúar kalla eftir þrengingu umferðar um götuna.
Barn sem farið var með á bráðamóttöku eftir að ekið var á það í Reykjavík á fimmtudag í síðustu viku liggur enn á spítala. Það er ekki í lífshættu og er á batavegi. Þetta kemur í fram í samtali Morgunblaðsins við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu

Flóki Larsen

floki@mbl.is

Barn sem farið var með á bráðamóttöku eftir að ekið var á það í Reykjavík á fimmtudag í síðustu viku liggur enn á spítala. Það er ekki í lífshættu og er á batavegi.

Þetta kemur í fram í samtali Morgunblaðsins við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.

Bílstjórinn sem ók á barnið keyrði um Hamrastekk. Barnið hjólaði á göngustíg sem fer þvert yfir götuna eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Þrátt fyrir að göngustígurinn liggi yfir götuna er þar hvorki gangbraut né skilti til þess að gefa til kynna umferð gangandi vegfarenda yfir götuna. Því mætti ætla að ökumenn ættu ekki von á umferð hjólandi og gangandi vegfarenda yfir götuna.

Ekki fyrsta slysið

Íbúi sem Morgunblaðið ræddi við segir svipað slys, þar sem keyrt var á barn, hafa átt sér stað í sömu götu. Það slys varð fyrir tæplega tíu árum neðar í götunni, 50 til 100 metrum frá þeim stað þar sem seinna slysið átti sér stað, þar sem göngustígurinn liggur yfir götuna.

Þetta kemur heim og saman við þær upplýsingar sem fengust hjá fulltrúa lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Íbúinn segir að fólk í hverfinu vinni um þessar mundir að undirskriftalista. Það muni kalla eftir því að komið verði fyrir þrengingu til þess að hægja á bílaumferð við Hamrastekk.

Íbúinn segir að einnig verði kallað eftir því að bætt verði úr merkingum til þess að gera bílstjórum viðvart um göngustíginn.

Höf.: Flóki Larsen