Björn Gíslason borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins var í gær kjörinn í menningar- og íþróttaráð. Hafði hann sætaskipti við Kjartan Magnússon, sem áður sat í ráðinu, en Kjartan fór þess í stað í mannréttindaráð.
Meirihlutinn klofnaði við atkvæðagreiðslu um málið, þar sem þrír borgarfulltrúar Pírata lögðust gegn því að Björn tæki sæti í ráðinu en fulltrúar VG, Sósíalista, Samfylkingar og Flokks fólksins sátu hjá eins og fulltrúi Viðreisnar úr minnihluta. Tíu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lýstu sig hlynnta setu Björns í ráðinu og því fór atkvæðagreiðslan 10:3 en tíu fulltrúar sátu hjá.
Málið á rætur að rekja til þess þegar skrifstofustjóri borgarstjórnar fjallaði um hæfi Björns í minnisblaði til forsætisnefndar borgarstjórnar 6. mars 2023 en þá taldi skrifstofustjórinn, auk borgarlögmanns, Björn vanhæfan til að sitja í ráðinu vegna sjálfboðaliðastarfa hans fyrir Fylki.
Málið fór fyrir innviðaráðuneytið sem gerði enga athugasemd við setu Björns í ráðinu. Sagði ráðuneytið í raun að borgaryfirvöld ættu sjálf að taka ákvörðun í málinu.
Helgi Áss Grétarsson borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði í gærkvöldi við mbl.is að hann teldi málið sýna að meirihlutinn hefði ekki þorað að standa með embættismönnum sínum „Að Pírötum undanskildum þorði meirihlutinn ekki að standa við það að segja að Björn væri vanhæfur. Það er kjarni málsins. Eftir álit innviðaráðuneytisins þorðu þeir ekki að halda því til streitu að útiloka hann frá þessu fagráði,“ segir Helgi.
Hann segir málið hafa verið ólýðræðislegt frá upphafi. „Þú ert að kjósa fólk vegna reynslu þess og sérþekkingar og það er mjög sérstakt, í svona ráði sem snýr að íþróttamálum, að bara vegna þess að þú ert formaður íþróttafélags í tómstundum þínum megir þú ekki taka þátt í neinu sem tengist ráðinu. Jafnvel þó að þú sért pólitískt kosinn í sveitarstjórn því þú hefur þessa sérþekkingu og reynslu,“ segir Helgi Áss. vidar@mbl.is