Alþingi Njáll Trausti Friðbertsson er fyrsti flutningsmaður.
Alþingi Njáll Trausti Friðbertsson er fyrsti flutningsmaður. — Morgunblaðið/Eyþór
„Markmið skýrslubeiðninnar er að varpa ljósi á launaþróun hjá hinu opinbera á undanförnum tíu árum og greina hvernig samband er á milli fjárlagaforsendna, fjárheimilda og raunverulegra launaútgjalda hjá hinu opinbera,“ segir í…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Markmið skýrslubeiðninnar er að varpa ljósi á launaþróun hjá hinu opinbera á undanförnum tíu árum og greina hvernig samband er á milli fjárlagaforsendna, fjárheimilda og raunverulegra launaútgjalda hjá hinu opinbera,“ segir í greinargerð með skýrslubeiðni sem samþykkt hefur verið á Alþingi, en beiðninni er beint til fjármála- og efnahagsráðherra.

Það er Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður sem var fyrsti flutningsmaður skýrslubeiðninnar, en auk hans standa níu aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að beiðninni.

Spurt er m.a. um hvert launaskrið hafi orðið hjá 30 stærstu ríkisaðilunum á tímabilinu 2014 til 2024, þar sem borin er saman þróun launakostnaðar ár hvert í samhengi við forsendur fjárlaga viðkomandi árs, sem og við fyrra ár hjá hverjum aðila fyrir sig.

Fram kemur að sérlega mikilvægt sé að kanna hvort og þá hvernig forstöðumenn ríkisstofnana hafi haft svigrúm til að semja um launahækkanir umfram þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar í fjárlögum hvers árs.

„Við viljum fá betri og skýrari yfirsýn yfir það, hvort sé verið að fara með fjárheimildir eins og ætlast er til og þetta sé allt í fjárlögum á hverju sviði. Okkur grunar nefnilega að það sé að fara meira í launakostnað hjá ríkinu en fjárheimildir í fjárlögum gera ráð fyrir,“ segir Njáll Trausti í samtali við Morgunblaðið.

„Það er nauðsynlegt að fá svör við því, því svo virðist sem hluti nýrra fjárheimilda, sem t.d. eru notaðar til að bæta þjónustu, hafi leitt til launahækkana umfram það sem forsendur fjárlaga gera ráð fyrir og án þess að Alþingi hafi tekið slíka ákvörðun,“ segir hann.

Njáll Trausti segir mikilvægt að greina hversu stór hluti nýrra fjárheimilda ríkisaðila hafi runnið í launahækkanir, fremur en til eflingar þjónustu eða nýrra verkefna, og muni skýrslan vonandi veita betri innsýn í það. Svo virðist sem hluti nýrra fjárheimilda sem ætlaðar séu til að bæta þjónustu hafi leitt til launahækkana umfram forsendur fjárlaga og því þurfi að greina í hve miklum mæli það hafi leitt til hærri ríkisútgjalda án þess að leiða til betri eða nýrrar þjónustu.

„Þetta gæti haft mikil áhrif á samfélagið því umræðan hefur verið að hið opinbera hafi dregið áfram launahækkanir. Það eitt getur haft skaðleg áhrif á verðbólguna og efnahagslegan stöðugleika í landinu. Það skiptir því gríðarlega miklu máli að þetta sé allt uppi á borðum,“ segir Njáll Trausti.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson