Árni Sverrisson
Árni Sverrisson
Félag skipstjórnarmanna er þeirrar skoðunar að magn til strandveiða eigi að lúta sömu lögmálum og magn til veiða í almenna kvótakerfinu, aflamarkskerfinu og krókaaflamarkskerfinu, þar sem veiðiheimildum er úthlutað fyrir hvert skip

Magnea Marín Halldórsdóttir

magnea@mbl.is

Félag skipstjórnarmanna er þeirrar skoðunar að magn til strandveiða eigi að lúta sömu lögmálum og magn til veiða í almenna kvótakerfinu, aflamarkskerfinu og krókaaflamarkskerfinu, þar sem veiðiheimildum er úthlutað fyrir hvert skip. Félagið er því ekki mótfallið strandveiðum en vill að um þær gildi sömu reglur.

Árni Sverrisson, formaður Félags skipstjórnarmanna, segir í samtali við Morgunblaðið að stjórnvöld hafi hins vegar ákveðið að heimila strandveiðar til ákveðið margra daga án þess að heildarmagnið sem bátarnir fá að veiða sé ljóst. „Þarna er verið að færa veiðiheimildir, mögulega, úr aflamarkskerfunum yfir í strandveiðikerfin með einum eða öðrum hætti,“ segir Árni, sem talaði fyrir atvinnuveganefnd um málið en segist ekki vongóður um að frumvarpið taki breytingum.

„Þegar maður talar fyrir atvinnuveganefnd þá gefa þeir ekkert út, þeir hlusta á sjónarmið okkar og spyrja spurninga,“ segir Árni og bætir við að upplifun sín af fundinum sé sú að stjórnvöld ætli að heimila strandveiðar í 48 daga. „Mér heyrist á öllu að þau ætli að hafa þetta óbreytt.“

Höf.: Magnea Marín Halldórsdóttir