Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Áformað er að lagning tveggja rafstrengja til Vestmannaeyja hefjist um næstu mánaðamót, en skip sem sérhæft er til slíkra verka er væntanlegt til landsins um miðja þessa viku. Það er í eigu Seaworks sem er norskt fyrirtæki sem er sérhæft í lagningu rafstrengja.
Þetta segir Einar Snorri Einarsson, forstöðumaður skrifstofu forstjóra Landsnets, í samtali við Morgunblaðið.
Rafstrengirnir sem auðkenndir eru sem Vestmannaeyjastrengir 4 og 5 eru viðbót við þá rafstrengi sem fyrir eru. Reyndar er flutningsgeta Vestmannaeyjastrengs 1 lítil orðin og strengur númer 2 er óvirkur. Vestmannaeyjastrengur 3 var lagður fyrir 12 árum og hefur bilað tvisvar, síðast í hittiðfyrra, en rekstur hans hefur gengið áfallalaust síðan.
Eykur afhendingaröryggi
„Við erum að horfa til þess að hefja lagningu strengjanna í byrjun júlí,“ segir Einar Snorri, en strengirnir verða lagðir frá Landeyjahöfn út til Vestmannaeyja. „Þetta á eftir að stórbæta afhendingaröryggi raforku í Vestmannaeyjum og einnig auka afhendingargetu sem stuðla mun að uppbyggingu atvinnulífs í Eyjum til framtíðar,“ segir Einar Snorri og nefnir að lagning rafstrengja sé viðkvæm fyrir veðurfari, ekki sé hægt að leggja strengina nema í tiltölulega lygnu veðri og lítilli ölduhæð. Því verði að haga seglum eftir vindi þegar að lagningunni kemur. Flutningsgeta raforku til Vestmannaeyja eykst verulega með tilkomu strengjanna tveggja, en hvor strengur ber 60 MVA sem stendur fyrir megavolt amper, en í samhengi við spenni vísar MVA til nafngetu spennisins. Það gefur til kynna það hámarksafl sem spennirinn þolir án þess að ofhitna eða skemmast.
Hafist verður handa við lagningu strengjanna frá Landeyjahöfn, en að því verki loknu verða strengirnir tengdir við tengivirki bæði í landi og í Eyjum. Áætlað er að lagningu rafstrengjanna ljúki um miðjan júlí nk. en gert er ráð fyrir verklokum um mánaðamótin ágúst-september.