Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Uppfærð greining Deloitte á áhrifum hækkunar veiðigjalds á sjávarútveginn í heild og dæmi um áhrif á einstakar útgerðir sýna að afleiðingar frumvarpsins virðast enn verulega vanmetnar.
Upphaflega var miðað við að veiðigjaldið færi úr 29 kr. á þorskkílóið í 47 kr., en Skatturinn taldi það fara í 64 kr. Atvinnuveganefnd reiknaðist hins vegar svo til að það færi í 58 kr. á kílóið og telur meirihlutinn það rétt. Uppfærsla Deloitte frá því á mánudag miðast við það.
Samkvæmt því færu veiðigjöld stórútgerðarinnar Brims úr 14% í 32% af rekstrarafkomu, en beinar álögur úr 28% í 45%. Veiðigjöld Skinneyjar-Þinganess á Höfn færu hins vegar úr 30% í 79% en þá næmu allar beinar álögur 102% af rekstrarafkomu og yrði útgerðin rekin með tapi fyrir vikið. Jafnvel miðlungi stór útgerð eins og Gunnvör í Hnífsdal finnur líka fyrir þessu, en þar færu veiðigjöldin úr 36% í 65% og álögurnar alls í 91%.