Baksvið
Hermann Nökkvi Gunnarsson
hng@mbl.is
Iðnaðurinn á Íslandi og í Evrópu er tilbúinn að svara kalli um aukna hergagnaframleiðslu og uppbyggingu varnartengdra innviða meðal aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins (NATO).
Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í samtali við Morgunblaðið.
Leiðtogafundur NATO fer nú um þessar mundir fram í Haag í Hollandi en samhliða fundinum var í gær haldinn sérstakur viðburður fyrir iðnaðinn með áherslu á varnartengdan iðnað. Mikil áhersla hefur verið lögð á að auka samhæfingu og afkastagetu varnartengds iðnaðar á milli Evrópu og Norður-Ameríku í ljósi hækkandi spennustigs í heiminum. NATO, Evrópusambandið og iðnaðurinn leggja nú drög að iðnaðarstefnu í tengslum við varnarmálin.
„Þetta auðvitað kemur til af því að spennan í heiminum hefur aukist og leiðtogarnir eru hér samankomnir til þess að samþykkja stóraukin framlög til varnarmála á næstu árum,“ segir Sigurður en hann var viðstaddur ráðstefnuna.
Útgjöld stóraukin
Mark Rutte framkvæmdastjóri NATO fer fram á breytingar um að hækka lágmarksútgjöld aðildarríkja til varnarmála úr 2% í 3,5%. Hann vill einnig að aðildarríki verji 1,5% af vergri landsframleiðslu í „varnartengda“ málaflokka, t.a.m. netvarnir og aðra innviði. Íslensk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau vilji auka útgjöld til varnartengdra innviða.
Þessi auknu útgjöld kalla á stóraukna afkastagetu iðnaðarins í Evrópu, aukið samstarf iðnaðar
beggja vegna Atlantshafsins, nýsköpun og samstarf stjórnvalda og iðnaðar.
„Það sem hefur verið mjög áberandi hérna í umræðunni varðandi það, fyrir utan fjármögnun og útboðsferli eða innkaupaferli, er einföldun á regluverki. Það hefur verið mikill þungi varðandi þörfina á því að Evrópusambandið einfaldi regluverk í þágu aukinnar uppbyggingar á þessu sviði,“ segir hann.
Hvernig kemur íslenskur iðnaður að þessu?
„Annars vegar er þetta uppbygging innviða og þar er auðvitað býsna mikil þörf. En við höfum líka séð samstarf af því tagi í verki upp á síðkastið með viðbrögðum á Reykjanesi í tengslum við eldsumbrotin. Þá er ég að vísa í gerð varnargarða og ýmislegt annað þar sem stjórnvöld og iðnaðurinn hafa tekið höndum saman. En síðan er þetta líka eins og forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa nefnt, þetta getur tengst hafnarmannvirkjum, samgöngumannvirkjum, fjarskiptum og bættri tengingu,“ segir Sigurður.
Íslenskt hugvit getur nýst
Er iðnaðurinn vel í stakk búinn til að mæta því ef varnartengd útgjöld verða aukin og hann þarf að auka afkastagetu?
„Já, iðnaðurinn er vel í stakk búinn og hann náttúrlega er vanur því
að auka sín umsvif og líka draga saman seglin hratt eins og aðstæður
krefjast. Þannig að ég er þess fullviss að iðnaðurinn geti tekist á við aukna uppbyggingu innviða,“ segir Sigurður.
Hann segir skipta máli hvernig hægt sé að nýta íslenska tækni og hugvit í varnartengdum og borgaralegum tilgangi. Sem dæmi nefnir hann að sáraumbúðir frá Kerecis hafi nýst í borgaralegum tilgangi en bandaríski herinn hafi verið einn af fyrstu stóru kúnnum fyrirtækisins. Þá nefnir hann einnig ómannaða kafbáta sem hafa verið þróaðir á Íslandi.
„Fyrirtækin eru að átta sig á því að þeirra vörur, það sem þau hafa skapað með sínu fólki, er hægt að aðlaga að þörfum til þess að auka öryggi í heiminum. Það er mjög spennandi viðfangsefni fyrir íslenskt efnahagslíf og getur orðið mjög mikilvægt framlag Íslands til heimsins á þessum viðsjárverðu tímum,“ segir Sigurður.
Selenskí ávarpaði fundinn
Spurður hvað stjórnvöld geti gert til að liðka fyrir iðnaðinum nefnir Sigurður að það þurfi að tryggja aðgang að fjármagni, tengja saman fyrirtæki sem eru innan NATO-ríkja og tryggja að íslensk fyrirtæki geti tekið þátt í innkaupum á vegum NATO-ríkja. Nefnir hann sem dæmi að ESB sé með fjárfestingaráætlun í tengslum við varnir sem muni nema 800 milljörðum evra til ársins 2030. Mikilvægt sé að íslensk fyrirtæki geti tekið þátt í þeim útboðum.
Á meðal ræðumanna á fundinum var Volodimír Selenskí forseti Úkraínu, sem ávarpaði ráðstefnuna og hvatti iðnaðinn til dáða.
„Það var mjög áhrifaríkt að heyra hann tala. Hann auðvitað hvatti NATO-ríkin til dáða í stuðningi við Úkraínu. Hann hvatti iðnaðinn til dáða í samstarfi og nýsköpun og talaði um það líka að iðnaðurinn gæti lært mikið af stríðinu í Úkraínu og þeim aðferðum sem hefur verið beitt þar.“
Vakti það sérstaka athygli að Selenskí notaði tækifærið og minntist á að samkvæmt gögnum Úkraínu væri árás Rússa á aðildarríki NATO mögulega í vændum á næstu árum. Rutte hefur einnig varað við slíku ef útgjöld til varnarmála verða ekki aukin.