Ferðamenn Á vinsælustu ferðamannastöðunum kostar í kringum þúsund krónur að leggja fimm sæta fólksbíl. Dýrara er að leggja stærri bílum.
Ferðamenn Á vinsælustu ferðamannastöðunum kostar í kringum þúsund krónur að leggja fimm sæta fólksbíl. Dýrara er að leggja stærri bílum. — Morgunblaðið/Eyþór
Ferðamenn sem leggja leið sína að helstu náttúruperlum Íslands þurfa víða að greiða fyrir bílastæði. Gjaldtakan er orðin útbreidd og á flestum stöðum nemur gjaldið um 1.000 krónum fyrir fimm sæta fólksbíl

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Ferðamenn sem leggja leið sína að helstu náttúruperlum Íslands þurfa víða að greiða fyrir bílastæði. Gjaldtakan er orðin útbreidd og á flestum stöðum nemur gjaldið um 1.000 krónum fyrir fimm sæta fólksbíl. Greiða þarf meira fyrir stærri bíla, oft allt að tvöfalt hærra verð, en ódýrara er að leggja mótorhjólum.

Þeir ferðamenn sem duglegir eru að stoppa á leið sinni um landið gætu þannig þurft að greiða á bilinu 10-15 þúsund krónur í bílastæði, það fer þó auðvitað eftir því hversu oft þeir stoppa.

Á meðal þeirra staða þar sem gjald er tekið fyrir stæði eru Þingvellir, Geysir, Jökulsárlón, Skógafoss og Reynisfjara. Á öllum þessum stöðum er gjaldið 1.000 krónur. Sama gjald gildir við Hverfjall, sem einnig er þekkt undir nafninu Hverfell, og við Fjaðrárgljúfur. Athygli vekur að á flestum ferðamannastöðum á Suðurlandi er gjaldskylda á bílastæðum en minna er um það í hinum landshlutunum. Þó má finna einstaka stað þar sem gjaldtaka er, eins og Kirkjufellsfoss.

Við Seljalandsfoss er gjaldið 900 krónur og við Sólheimajökul 750 krónur. Skaftafell sker sig úr með nákvæmari verðlagningu, þar sem bílastæðagjaldið er 1.040 krónur. Við Hjörleifshöfða, sem sífellt fleiri ferðamenn sækja heim, er gjaldið einnig 1.000 krónur, eins og við Stuðlagil í Jökuldal.

Á kortinu hér að ofan er ekki um tæmandi lista að ræða en inni á vef Parka er að finna fjölda annarra ferðamannastaða þar sem greiða þarf fyrir að leggja bílnum. Þá þarf einnig að greiða fyrir bílastæði víða í Reykjavík og á Akureyri, auk þess sem nýlega var tekin upp gjaldskylda á bílastæðinu við höfnina á Húsavík, þaðan sem hvalaskoðunarbátar fara út á Skjálfanda.

Víða þarf að greiða gjaldið rafrænt, ýmist í gegnum sérstök snjallsímaforrit eða með skönnun á QR-kóða við stæðin.

Gjaldtakan á þessum stöðum er oft réttlætt með tilvísun í nauðsyn þess að standa straum af rekstri og viðhaldi innviða, sorphirðu og salernisaðstöðu, en einnig með tilvísun í verndun viðkvæmrar náttúru. Flestir staðirnir sem rukka fyrir bílastæði eru meðal fjölsóttustu ferðamannastaða landsins og mega þola mikið álag yfir ferðamannatímann.

Bílastæðagjöld

Stöðunum hefur fjölgað

Á síðustu árum hefur þeim stöðum fjölgað þar sem gjald er innheimt á bílastæðum.

Til dæmis hóf Norðurþing að innheimta gjald á bílastæðum við höfnina á Húsavík nú í sumar.

Á síðasta ári hófst gjaldtaka á bílastæðinu á Bolafjalli og einnig er nú gjaldtaka á stæðinu við fossinn Dynjanda.

Víðast hvar á Suðurlandi er gjald innheimt á stæðum en minna er um það við ferðamannastaði í hinum landshlutunum. Sem fyrr segir fer þeim þó fjölgandi. Gjaldið er á mörgum stöðum nýtt til viðhalds á innviðum.

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir