Að minnsta kosti 19 manns féllu og um það bil 300 til viðbótar særðust í harðri loftárás Rússa á borgina Dnípró í fyrradag. Árásirnar áttu sér stað á sama tíma og Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hélt til Haag á leiðtogafund Atlantshafsbandalagsríkjanna, en Selenskí fundaði m.a

Flóki Larsen

floki@mbl.is

Að minnsta kosti 19 manns féllu og um það bil 300 til viðbótar særðust í harðri loftárás Rússa á borgina Dnípró í fyrradag. Árásirnar áttu sér stað á sama tíma og Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hélt til Haag á leiðtogafund Atlantshafsbandalagsríkjanna, en Selenskí fundaði m.a. með Donald Trump Bandaríkjaforseta þar.

Skotmörkin voru m.a. skólar, leikskólar og sjúkrahús í Dnípró, höfuðborg héraðsins Dníprópetrovsk í miðri Úkraínu. Rússneski herinn segist nú hafa öðlast fótfestu í héraðinu í fyrsta skipti síðan innrásin hófst. Boris Filatov borgarstjóri Dnípró-borgar sagði þetta vera skæðustu árás Rússa á borgina frá upphafi innrásarinnar.

Rússar gerðu fleiri árásir á Úkraínu í fyrradag, og var ungbarn á meðal þriggja fórnarlamba sem féllu í árás í Súmí-héraði sem liggur að landamærunum við Rússland.

Rússar hafa fjölgað loftárásum sínum á Úkraínu í sumar, og hafa þeir sent rúmlega 2.700 sjálfseyðingardróna til árása á Úkraínu það sem af er júnímánuði. Þá skjóta þeir einnig fjölda eldflauga á landið.

Hafa þeir einkum ráðist að höfuðborginni Kænugarði, en níu manns féllu þar á mánudaginn og rúmlega þrjátíu særðust í loftárás Rússa.

Höf.: Flóki Larsen