Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
Samhljómur er á milli stéttarfélaga, skipstjórnarmanna, sjómanna og vélstjóra um strandveiðifrumvarp atvinnuvegaráðherra. Enginn fulltrúi þeirra er andvígur strandveiðum á meðan ekki verði tekið úr aflamarkskerfinu.
Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, segir vélstjóra ætla að vera hlutlausa í þessu máli fyrst um sinn.
„Félagsmenn okkar eru nokkrir á strandveiðum og ennþá fleiri eru á fiskiflotanum og við ætlum ekki að sjá þá slást neitt.“
Hann segir félagið ekki ætla að blanda sér í þessa umræðu að svo stöddu á meðan ekki er verið að færa kvóta á milli kerfa.
„Atvinnumennirnir okkar eru hjá útgerðunum og hafa af því atvinnu allt árið og við viljum ekki skerða þá til að auka við hjá hinum. Það er okkar afstaða og á meðan ekki er tekið af aflamarkskerfinu erum við rólegir.“
Hann hefur ekki verið kallaður á fund atvinnuveganefndar og heldur ekki óskað eftir því.
„Á meðan er tekið af þessum byggðakvóta erum við rólegir en ef það á að hræra í fiskveiðikerfinu í heild og rífa af útgerðunum sem eru með launamennina okkar þá yrðum við ekki sáttir.“
Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambandsins segist ekki vera á móti strandveiðum en vill að allir sitji við sama borð. Hann hefur ekki verið kallaður á fund atvinnuveganefndar.
„Við teljum ekki eðlilegt að tekið sé út úr aflamarkskerfinu í strandveiðarnar því þá sitja mínir menn eftir með sárt ennið. Menn hafa ekki vinnu allt árið af strandveiðinni og ef þær verða til þess að þeir sem vinna allt árið missi vinnu vegna strandveiða þá munum við bregðast hart við.“
Árni Sverrisson, formaður Félags skipstjórnarmanna, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að Félag skipstjórnarmanna væri þeirrar skoðunar að magn til strandveiða ætti að lúta sömu lögmálum og magn til veiða í almenna kvótakerfinu, aflamarkskerfinu og krókaaflamarkskerfinu, þar sem veiðiheimildum er úthlutað fyrir hvert skip. Félagið sé því ekki mótfallið strandveiðum en vill að um þær gildi sömu reglur.
Hann sagði að stjórnvöld hefðu hins vegar ákveðið að heimila strandveiðar til ákveðið margra daga án þess að heildarmagnið sem bátarnir fá að veiða sé ljóst.
„Þarna er verið að færa veiðiheimildir, mögulega, úr aflamarkskerfunum yfir í strandveiðikerfin með einum eða öðrum hætti,“ sagði Árni.