Tilkynningum til barnaverndar fjölgaði um tæp tíu prósent í fyrra og voru alls 16.751 en fjölgunin er þó heldur minni en á milli næstu ára á undan.
Fram kemur í nýrri samantekt Barna- og fjölskyldustofu að tilkynningum vegna áhættuhegðunar meðal barna fjölgaði um 14,5% í fyrra. „Mest fjölgar tilkynningum um neyslu barns á vímuefnum og öðrum efnum sem hafa skaðleg áhrif á heilsu þess og velferð, en slíkum tilkynningum fjölgaði um tæplega 60%. Fjölgunin varðar bæði stúlkur og drengi. Þá fjölgaði tilkynningum um að barn komi sér undan forsjá um rúmlega 30% og varða þær tilkynningar oftar stúlkur en drengi. Tilkynningum vegna afbrota barns fjölgaði einnig á milli ára, eða um 8%. Tilkynningum vegna þess að barn beitir ofbeldi fjölgaði um 21,9%. Flestar slíkar tilkynningar (vegna afbrota barns og barn beitir ofbeldi) eru vegna drengja, eða 82,6%,“ segir í samantekt Barna- og fjölskyldustofu.
Flestar tilkynningar sem bárust til barnaverndar í fyrra voru vegna vanrækslu á börnum eða 40,7% allra tilkynninga sem er lítið eitt lægra hlutfall en á árunum 2022 og 2023. Tilkynningum vegna vanrækslu fjölgaði um 8,2% frá árinu á undan. Hlutfallslega fjölgaði tilkynningum um tilfinningalega vanrækslu mest.
19,8% fjölgun tilkynninga vegna líkamlegs ofbeldis
„Tilkynningum vegna ofbeldis gegn börnum á árinu 2024 fjölgaði um 6,5% frá árinu á undan, en fjölgun var 4,3% milli áranna 2022 og 2023. Tilkynningum fjölgaði í öllum undirflokkum ofbeldis nema vegna kynferðisofbeldis þar sem tilkynningum fækkaði um 6,2% á milli ára. Mest fjölgaði tilkynningum vegna líkamlegs ofbeldis en slíkar tilkynningar voru 19,8% fleiri árið 2024 en árið 2023. Er það heldur meiri fjölgun en á milli áranna 2022 til 2023. Í 25,8% tilvika voru slíkar tilkynningar á árinu 2024 vegna ofbeldis af hendi aðila náins barninu,“ segir í samantekt.
Tilkynningum til barnaverndar fjölgaði hlutfallslega mest í Reykjavík eða um tæp 13%, hjá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu um 11,7%, en minnst í sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins eða 5,7%. omfr@mbl.is