— Ljósmynd/Atlantshafsbandalagið
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra átti ágætt spjall við Donald Trump Bandaríkjaforseta á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins (NATO). Þetta kemur fram í samtali hennar við Morgunblaðið. Í hátíðarkvöldverði í fyrrakvöld hjá konungsfjölskyldu…

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra átti ágætt spjall við Donald Trump Bandaríkjaforseta á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins (NATO). Þetta kemur fram í samtali hennar við Morgunblaðið. Í hátíðarkvöldverði í fyrrakvöld hjá konungsfjölskyldu Hollands gafst Kristrúnu tækifæri til að ræða við fjöldann allan af þjóðarleiðtogum, þar á meðal Trump.

„Þar fórum við örstutt yfir samband okkar Íslands og Bandaríkjanna. Ég nefndi auðvitað við hann tvíhliða varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna, sem við metum mikils, og hann gerir það líka. Hann er fullur sannfæringar hvað varðar okkar samband, þannig að það er gott að finna þennan stuðning,“ segir Kristrún.

Trump hafði milligöngu um vopnahlé í átökum Ísraels og Írans sem hófst á þriðjudag og stendur enn. Áfram geisar þó stríð á milli Ísraels og hryðjuverkasamtakanna Hamas á Gasa og Kristrún hvatti Trump til að koma á vopnahléi þar.

„Við töluðum auðvitað líka um stöðuna fyrir botni Miðjarðarhafs og ég hvatti Bandaríkjaforseta, sem sat nú bara beint á móti mér og horfði í augun á mér, til þess að koma á vopnahléi á Gasa, þar sem hann hefði áður sýnt að hann getur haft gífurleg áhrif á slíka samninga og að vopnahlé náist,“ segir Kristrún.

Hvernig brást hann við ummælunum?

„Hann kinkaði kolli í það allra minnsta, get ég sagt. Hann er meðvitaður um sína stöðu. Hann er auðvitað meðvitaður um þá gífurlega mikilvægu stöðu og stóra hlutverk sem Bandaríkin gegna í alþjóðamálum. Og það skiptir máli að þau heyri hvatningu frá Íslandi bæði í málefnum Úkraínu og í málefnum fyrir botni Miðjarðarhafsins. Og þau skilaboð voru mjög skýr af hálfu Íslands,“ segir Kristrún að lokum. » 30

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson