Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra hefur skipað Halldór Jón Gíslason í embætti skólameistara Framhaldsskólans á Húsavík til fimm ára frá 1. ágúst næstkomandi.
Ráðherrann hefur einnig skipað Benedikt Barðason í embætti skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri til fimm ára frá 1. ágúst næstkomandi.
Halldór Jón hefur starfað við skólann frá árinu 2017 sem aðstoðarskólameistari og áfangastjóri. Hann hefur einnig starfað við verkefnastjórn á Hvalasafninu á Húsavík og við kennslu í Framhaldsskólanum auk annarra starfa.
Halldór Jón er með meistaragráðu frá Háskóla Íslands í mannauðsstjórnun auk kennsluréttinda í framhaldsskóla frá sama skóla. Hann hefur lokið grunnnámi í sagnfræði við Háskóla Íslands.
Alls sóttu tveir um embættið.
Benedikt hefur starfað við VMA í 25 ár sem kennari, áfangastjóri, aðstoðarskólameistari og sem settur skólameistari. Hann var einnig settur skólameistari í Framhaldsskólanum á Laugum síðastliðið ár.
Benedikt er með meistaragráðu frá Háskóla Íslands í opinberri stjórnsýslu auk kennsluréttinda frá Kennaraháskóla Íslands. Hann lauk grunnnámi í efnatæknifræði við Háskólann í Álaborg og er með diplómu í iðnrekstrarfræði frá Háskólanum á Akureyri.
Alls sóttu þrír um embættið.