Jens Garðar Helgason
Flest þekkjum við dæmisöguna um froskinn og sporðdrekann. Fyrir þau sem gera það ekki þá í stuttu máli lofaði sporðdrekinn að stinga ekki froskinn ef hann fengi að sitja á baki hans yfir ána. Í miðri á stakk sporðdrekinn hins vegar froskinn og í andarslitrunum spurði froskurinn: af hverju? „Af því að ég er sporðdreki. Að stinga er eðli mitt,“ sagði sporðdrekinn. Báðir sukku þeir í ána og dóu.
Fyrir kosningarnar lofuðu að minnsta kosti tveir af þremur stjórnarflokkum landsmönnum
því að þeir myndu ekki hækka skatta á vinnandi fólk. Fjölskyldurnar yrðu í vari fyrir skatta- og gjaldahækkunum svo lengi sem viðkomandi vinstriflokkar kæmust til valda.
En Adam var ekki lengi í paradís. Nokkrum vikum eftir að vinstristjórninni var komið á koppinn kom hið sanna eðli stjórnarflokkanna í ljós. Rétt eins og sporðdrekinn sem réð ekki við eðli sitt gat ríkisstjórnin ekki hamið sig í að hækka skatta þegar hún komst til valda. Kílómetragjald, samsköttun hjóna, lokun ehf.-gatsins, skattur á heita vatnið og að skylda sveitarfélög til þess að leggja á hámarksútsvar er það sem þegar hefur dunið á heimilunum í landinu á fyrstu sex mánuðum þessarar ríkisstjórnar. Er þá ótalin sú fyrirætlan stjórnarinnar að skerða ellilífeyri verkafólks um allt að 7,5% til að fjármagna nýtt örorkulífeyriskerfi.
Hugmyndafræði vinstriaflanna hefur ekkert breyst í tímans rás. Í stað skýrrar framtíðarsýnar um hvernig megi auka verðmætasköpun í landinu, stækka kökuna, þá er farið í sama gamla farið. Enda er það eðli þeirra. Vinstrimenn telja að þeim sé betur treystandi til þess að áðstafa sjálfsaflafé fólks en fólkinu sjálfu. Því sé réttlætanlegt að eilast æ dýpra í vasa skattgreiðenda, heimilanna í landinu.
Því miður er hér á ferðinni enn ein vinstristjórnin sem „stingur“ heimilin í landinu um leið og tækifæri gefst. Það má þó vona að það verði ekki til þess að við sökkvum öll með ríkisstjórninni á þeirri vegferð.
Höfundur er varaformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður Norðausturkjördæmis.