Nýliðar Magnús Guðmundsson, Jelena Ciric og Pétur Eggertsson komu nýlega til starfa hjá Ríkisútvarpinu og feta í fótspor landsþekktra útvarpsþula á Rás 1.
Nýliðar Magnús Guðmundsson, Jelena Ciric og Pétur Eggertsson komu nýlega til starfa hjá Ríkisútvarpinu og feta í fótspor landsþekktra útvarpsþula á Rás 1. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Hlustendur taka alla jafna eftir því þegar það koma nýjar raddir á Rás 1. Viðbrögðin hafa verið jákvæð hingað til og það er gaman,“ segir Jelena Ciric, nýr þulur á Rás 1. Athygli hefur vakið síðustu vikur að þrjár nýjar raddir hafa…

Viðtal

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Hlustendur taka alla jafna eftir því þegar það koma nýjar raddir á Rás 1. Viðbrögðin hafa verið jákvæð hingað til og það er gaman,“ segir Jelena Ciric, nýr þulur á Rás 1.

Athygli hefur vakið síðustu vikur að þrjár nýjar raddir hafa boðið hlustendum Rásar 1 góðan dag og fylgt þeim í gegnum dagskrá dagsins. Heyrir það til nokkurra tíðinda enda er alla jafna ekki mikið um breytingar á þeim bænum. Auk Jelenu hafa Magnús Guðmundsson og Pétur Eggertsson bæst í hóp útvarpsþula og feta þau þar með í fótspor ekki ómerkara fólks en Gerðar G. Bjarklind, Péturs Péturssonar, Jóhannesar Arasonar, Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur, Jóns Múla Árnasonar og Sigvalda Júlíussonar svo fáeinir séu nefndir.

Jelena kveðst hafa séð starfið auglýst og umsvifalaust hugsað að þetta væri eitthvað fyrir sig. Í þularstarfinu nýtist menntun hennar og reynsla auk þess sem það falli vel að áhugasviði hennar. „Þetta er eiginlega bara draumastarf,“ segir hún.

Flutti til Íslands árið 2016

Jelena hóf störf í byrjun maí og segir hún að fyrsta vikan hafi verið mjög erfið. „Þetta er miklu tæknilegra starf en hlustendur gera sér grein fyrir. Við stjórnum útsendingunni á virkum dögum, veljum tónlistina og þurfum að nota mörg forrit á sama tíma. En svo vandist þetta fljótt og nú finnst mér ótrúlega gaman að vera í beinni útsendingu og ávarpa hlustendur.“

Jelena fæddist í Serbíu en ólst upp í Kanada. Hún fluttist til Íslands árið 2016 ásamt manni sínum og hefur tekið virkan þátt í íslensku tónlistarlífi. Árið 2021 hlaut hún Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir plötu sína, Shelters One.

Jelena er fyrsti þulurinn á Rás 1 sem hefur ekki íslensku sem fyrsta mál. „Það er ótrúlega mikill heiður að fá þetta hlutverk. Ég segi bara að það sé tími til kominn enda er RÚV útvarp allra landsmanna. Ég veit að Ríkisútvarpið hefur það að markmiði að endurspegla þjóðina og fólkið í landinu. Hins vegar var ég ekki ráðin út af þessu heldur út af reynslu minni.“

Hafði tíma til að læra málið

Ekki verður sagt að Jelena hafi verið ráðin af einhverri góðmennsku eða til að uppfylla einhverjar kröfur. Hún hefur frábært vald á tungumálinu.

Af hverju talarðu svona góða íslensku?

„Ég fæ þessa spurningu oft og segi oftast að það sé að miklu leyti út af forréttindum. Ég hafði bakgrunn í tungumálum og þegar ég kom til landsins hafði ég tíma og peninga til að stunda tungumálanám. Svo á ég íslenska tengdafjölskyldu sem er bæði yndisleg og hjálpleg. Ég hef líka verið mjög þrjósk og reyndi að tala helst ekki ensku. Af þeim sökum var ég mjög þögul fyrst. Nú er ég ekki eins þögul,“ segir hún og bætir við að það sé sér mikið hjartans mál að bæta aðgengi að íslenskukennslu. „Ef einhver með tíma og peninga eins og ég gat lært íslensku þá geta það allir ef við aukum aðgengi að kennslunni. Það ættum við sem samfélag að vilja.“

Skáldsögur og tónsmíðar

Hinir tveir nýju þulirnir hafa sömuleiðis fjölbreyttan bakgrunn. Pétur Eggertsson útskrifaðist með BA-gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og MA-gráðu frá Mills College í Oakland í Kaliforníu. Hann hefur starfað með fjölda tónlistar- og listamanna úr ýmsum geirum og kemur reglulega fram.

Magnús hefur fengist við ýmislegt um ævina. Hann var til að mynda menningarritstjóri Fréttablaðsins og hefur sent frá sér tvær skáldsögur auk þess að skrifa ævisögu Halldórs Einarssonar í Henson.

Magnús segir í samtali við Morgunblaðið að gaman sé að fá tækifæri sem þetta „á gamals aldri“, eins og hann orðar það.

Afi var útvarpsþulur

„Það er gott að taka áskorun þó að maður eldist,“ segir hann og tekur undir með Jelenu að starfið sé mun flóknara en margir telja; það snúist ekki bara um að segja hvað er næst á dagskrá og hvað hafi verið að klárast. Þvert á móti hafi hann þurft að tileinka sér ýmislegt tæknilegt. „En Pétur Grétarsson er einstakur, hann hefur sýnt mér ótrúlega þolinmæði.“

Þá segir Magnús að hann sé ekki sá fyrsti í fjölskyldu sinni sem tekst á við starf útvarpsþular. „Þorsteinn Ö. Stephensen, móðurafi minn, var þulur við Ríkisútvarpið og seinna yfir leiklistardeildinni þar. Ég er því ekki sá fyrsti í fjölskyldunni til að segja „Útvarp Reykjavík, góðan dag“,“ segir hann.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon