Atlantshafsbandalagið Leiðtogar bandalagsríkjanna samþykktu umtalsverða hækkun á útgjöldum til varnarmála.
Atlantshafsbandalagið Leiðtogar bandalagsríkjanna samþykktu umtalsverða hækkun á útgjöldum til varnarmála. — AFP/Nicolas Tucat
Leiðtogar Atlantshafsbandalagsríkjanna samþykktu í gær umtalsverða hækkun á útgjöldum bandalagsríkjanna til varnarmála. Stefna ríkin nú að því að hækka bein útgjöld sín til varnarmála úr 2% og upp í að minnsta kosti 3,5% af vergri landsframleiðslu (VLF) fyrir árið 2035

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Leiðtogar Atlantshafsbandalagsríkjanna samþykktu í gær umtalsverða hækkun á útgjöldum bandalagsríkjanna til varnarmála. Stefna ríkin nú að því að hækka bein útgjöld sín til varnarmála úr 2% og upp í að minnsta kosti 3,5% af vergri landsframleiðslu (VLF) fyrir árið 2035. Þá hyggjast ríkin einnig verja 1,5% af VLF til varnartengdra innviða.

Markmið ríkjanna verður því að minnst 5% af VLF verði varið í varnarmál eða varnartengd mál, en það var sú krafa sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði gert stuttu eftir að hann tók við embætti að nýju.

Trump lýsti í gær yfir mikilli ánægju sinni með leiðtogafundinn og hið nýsamþykkta markmið. Sagði hann það vera „stórsigur“ fyrir bæði Bandaríkin en ekki síður Evrópu og vestræna menningu, þar sem ríki Evrópu yrðu nú færari um að verja sig.

Í sameiginlegri yfirlýsingu fundarins sögðu leiðtogar allra 32 bandalagsríkjanna að þeir stæðu þétt saman á bak við Atlantshafsbandalagið og 5. grein Washington-sáttmálans um að árás á eitt ríki væri árás á þau öll.

„Við erum áfram sameinuð og staðföst í einurð okkar að verja ríkisborgara okkar, einn milljarð talsins, verja bandalagið og treysta frelsi okkar og lýðræði,“ sagði m.a. í yfirlýsingunni.

Þar var einnig tekið fram að ríkin stæðu saman gegn sameiginlegum ógnum, og var þar sérstaklega nefnd sú ógn sem stafaði af Rússum gagnvart Evrópu og Norður-Atlantshafi til lengri tíma. Þá var einnig tekið fram í yfirlýsingunni að bandalagsríkin hétu því að styðja áfram við Úkraínu, þar sem öryggi landsins styddi við öryggi Atlantshafsbandalagsins. Bein útgjöld til varna Úkraínu og varnariðnaðar landsins verða því talin með í 3,5% markmiðinu.

Stendur með fimmtu greininni

Trump var spurður eftir fundinn hvort hann myndi framfylgja 5. grein Atlantshafssáttmálans um sameiginlegar varnir bandalagsríkjanna, en Trump sagði í fyrradag að til væru ýmsar skilgreiningar á fimmtu greininni. Trump tók hins vegar í gær af öll tvímæli um að hann stæði með 5. greininni.

„Ég stend með henni. Þess vegna er ég hér. Ef ég gerði það ekki, væri ég ekki hér,“ sagði Trump. Sagðist hann jafnframt vera mjög ánægður með fundinn og samkomulagið við bandalagsríkin í Evrópu. „Án Bandaríkjanna gætu þau ekki haft NATO í raun. Það myndi ekki ganga upp,“ sagði Trump. „Það mun gera það í framtíðinni, því nú borga þau mun meiri pening.“

Þó að öll bandalagsríkin undirrituðu yfirlýsingu fundarins voru ekki allir þjóðarleiðtogarnir sáttir við hið nýja markmið. Pedro Sánchez forsætisráðherra Spánar sagðist telja að Spánn gæti uppfyllt kröfur bandalagsins á raunhæfan hátt án þess að verja 5% af VLF til varnarmála. Undirritaði hann því yfirlýsinguna með fyrirvara.

Trump gagnrýndi hins vegar Sánchez harðlega í gær og sagðist ekki skilja hvers vegna Spánverjar væru eina ríkið sem ekki vildi borga sinn skerf til bandalagsins. Hét hann því að láta Spánverja þá frekar greiða það í gegnum tollasamning þann sem stefnt er að því að gera á milli ríkjanna tveggja.

Átti góðan fund með Selenskí

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti var einn af gestum fundarins líkt og fyrri ár, þó að hann væri minna áberandi en áður. Selenskí og Trump funduðu hins vegar í gær á hliðarlínu fundarins, og sögðu báðir forsetarnir að fundur þeirra hefði verið góður.

Bað Selenskí Trump m.a. um fleiri loftvarnarkerfi til þess að verjast síharðnandi loftárásum Rússa á Úkraínu. Trump sagði að hann myndi athuga málið, en að það væri mikil þörf víða fyrir slík kerfi.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson