Ríkisstjórnin lagði fram alltof mörg þingmál og virðist hafa átt í vandræðum með að gera upp á milli þeirra. Fyrir vikið er hún komin í megnustu vandræði með bæði helstu eigin mál, sem sum eru umdeild, og önnur, sem ágreiningslausari eru, jafnvel brýn mál eins og fjármálaáætlun.
Þetta er samdóma álit reynsluboltanna Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknarflokksins og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins, en báðir hafa þeir mikla þingreynslu og hafa einnig lengi gegnt ráðherraembætti. Þeir eru gestir dagsins í Dagmálum, sem opin eru öllum áskrifendum.
Þeir telja ómögulegt að segja fyrir um hvenær þinglok geti orðið, fremur hafi miðað aftur á bak en áfram í þreifingum um það síðustu daga.