Frelsi Í seríunni „Nótt“ hefur Angela frelsað innilokaða konu í ljóðum.
Frelsi Í seríunni „Nótt“ hefur Angela frelsað innilokaða konu í ljóðum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Olíubrák – ljóðstafir kvenna í olíu“ er yfirskrift verkefnis sem Angela Árnadóttir hefur unnið að undanfarna 12 mánuði. Á fyrstu sýningunni verða 13 til 15 verk. Hún verður í tengslum við árlega Sumartónleika í Skálholti 28

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

„Olíubrák – ljóðstafir kvenna í olíu“ er yfirskrift verkefnis sem Angela Árnadóttir hefur unnið að undanfarna 12 mánuði. Á fyrstu sýningunni verða 13 til 15 verk. Hún verður í tengslum við árlega Sumartónleika í Skálholti 28. júní til 13. júlí og verður opnuð klukkan 18 nk. sunnudag. Þaðan verður hún flutt í Báruna brugghús á Akranesi þar sem hún verður í samfloti við Menningarhátíðina Vökudaga í október. „Ég hef aldrei unnið að neinu sem hefur tekið eins mikið á og staðið mér eins nærri og þessi sýning,“ segir myndlistarkonan.

Í fyrra fékk Angela þá hugmynd að mála ljóð eftir látnar skáldkonur, ekki síst gleymdar eða lítt þekktar. „Ljóðabókin Ljóðnálar eftir Kristjönu Emilíu Guðmundsdóttur var kveikjan.“ Hún segir að hugmyndin sé að láta boðskap ljóðanna fljóta upp á yfirborðið í olíu gegnum lífsins ólgusjó. „Gleymum ekki röddum þeirra sem fæddu okkur í þennan heim,“ segir hún boðskapinn vera. „Þær minna okkur á að vinna, elska börnin, gefast aldrei upp á listinni og berjast fyrir réttlætinu.“ Oft hafi verið þörf en nú sé nauðsyn. „Aldrei hafa raddir þessara kvenna verið þarfari en nú.“

Nóttin öðlast birtu

Í fyrstu atrennu verkefnisins hefur Angela unnið með verk eftir Guðrúnu Árnadóttur, Jakobínu Johnson, Ólöfu Sigurðardóttur, Oddnýju Guðmundsdóttur, Unni Benediktsdóttur Bjarklind (Huldu) og Kristjönu E. Guðmundsdóttir. Innblástur seríunnar „Óður til litlu blómanna“ er frá Guðnýju frá Klömbrum, Unni Benediktsdóttur Bjarklind (Huldu) og Guðbjörgu Árnadóttur. Efniviður í seríuna „Nótt“ er sóttur til Ólínu Andrésdóttur, Ólínu Jónasdóttur, Þuríðar Bjarnadóttur og Vilborgar Dagbjartsdóttur.

„Þessar konur eiga það sammerkt að þær hylla allar nóttina á fallegan, einlægan og friðsælan hátt og það er sem rauður þráður í verkefninu,“ útskýrir Angela og vísar sérstaklega í seríuna „Nótt“. „Það er eina serían sem er abstrakt.“ Ætla megi að skáldkonurnar hafi fyrst fengið frið frá daglegu amstri á kvöldin og nóttunni og þá sest niður í ró og skrifað. „Ég vil draga verk þessara kvenna fram í dagsljósið og veita þeim birtu. Ég hef oft málað dökkar myndir en í þessu verkefni vil ég sækja í bjarta liti. Ég hef þurft að mála mig frá sorglegum ljóðum með því að gefa þeim birtu.“

Angela, sem kennir myndlist í Fjölbrautaskóla Vesturlands, verður með leikhús-, ljóða- og myndlistarsmiðju fyrir börn samfara sýninginni á Sumartónleikunum í Skálholti, en Benedikt Kristjánsson, eiginmaður hennar, er framkvæmdastjóri og listrænn stjórnandi Sumartónleikanna, sem hafa verið starfræktir frá 1975.„Sýningin er óður til skáldkvenna okkar og mig grunaði ekki hvað mikill fjársjóður leynist víða fyrr en á reyndi,“ segir Angela. Hún bætir við að fyrir vikið hafi verkefnið, sem er styrkt af Akraneskaupstað og Menningarsjóði Vesturlands, orðið mun stærra en hún hafi stefnt að í fyrstu. „Verkefnið er rétt að byrja.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson