Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Þetta er stóra málið og jafnvel stærra en hin illa undirbúna skattahækkun á sjávarútveginn, því hér eru öll opinber fjármál undir,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi flokksins í fjárlaganefnd Alþingis, í samtali við Morgunblaðið. Hann vísar hér til þess að ríkisútgjöld muni hækka um 300 milljarða króna á árabilinu 2026 til 2030, skv. fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, en að ekki sé gert ráð fyrir lækkun skulda.
„Ríkisstjórnin hefur ekki farið að lögum um opinber fjármál, því fyrst á að koma fram með fjármálastefnu á Alþingi og síðan fjármálaáætlun þegar stefnan um stóru málin hefur verið útrædd og samþykkt. Á grunni samþykktrar fjármálastefnu á síðan að byggja fjármálaáætlun. Ríkisstjórnin lagði hins vegar bæði málin fram á sama tíma, þannig að ekki hefur verið hægt að fara í neina greiningarvinnu á þessum hlutum,“ segir Guðlaugur Þór.
Hann bendir einnig á að þegar rýnt sé í fátækleg gögn frá ríkisstjórninni sjáist ekki hvernig taka eigi á þeim miklu útgjöldum ríkissjóðs sem fyrirsjáanleg séu á næstu árum, þ.e. á árunum 2026 til 2030.