Lárus M.K. Ólafsson
Lárus M.K. Ólafsson
Alþingi hefur nú samþykkt frumvarp umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem eyðir óvissu um Hvammsvirkjun.

Lárus M.K. Ólafsson

Fólkið í landinu gerir kröfu um að stjórnvöld styðji af krafti við aukna raforkuöflun en hlúi jafnframt að þeim miklu verðmætum sem felast í óspjallaðri náttúru. Þetta er jafnvægislist og ábyrgðarhlutverk.

Fyrir Alþingi liggur nú þingsályktunartillaga um flokkun fimm virkjunarkosta í samræmi við tillögu verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lagði tillöguna fram 15. febrúar en áður hafði sama tillaga að flokkun virkjunarkosta setið föst í ríkisstjórn vegna andstöðu Vinstri-grænna. Í upphaflegri tillögu var lagt til að virkjunarkostirnir Skrokkalda, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun færu í orkunýtingarflokk en Kjalölduveita og Héraðsvötn í verndarflokk. Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar hefur nú lagt til þá breytingu að Kjalölduveita fari ekki í verndarflokk heldur í biðflokk og að Urriðafossvirkjun fari jafnframt í biðflokk.

Þetta er skynsamleg breyting. Kjalölduveita sunnan Þjórsárvera er einhver hagkvæmasti virkjunarkostur sem til er á Íslandi og felst hagkvæmnin í því að virkjunin myndi stórauka orkuframleiðslu núverandi virkjanakerfis á Þjórsár-Tungnaársvæðinu og þeirra virkjana sem munu bætast við á komandi árum. Þar er Hvammsvirkjun næst í röðinni en þann 16. júní síðastliðinn samþykkti Alþingi frumvarp umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem eyðir þeirri óvissu um virkjunarframkvæmdirnar sem hafði skapast með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur fyrr á árinu. Þá dómsniðurstöðu mátti rekja til óskýrleika í lögum um stjórn vatnamála sem stjórnvöld höfðu ítrekað verið vöruð við að þyrfti að taka á.

Á síðustu árum hefur nýting virkjana farið jafnt og þétt vaxandi samhliða slæmri lónsstöðu og flutningstakmörkunum. Gríðarlegt ójafnvægi hefur skapast milli framboðs og eftirspurnar eftir raforku og afleiðingin er minna svigrúm til að bregðast við áföllum í vinnslu- og flutningskerfi raforku eða óvæntri minnkun á framboði. Á næstu árum er ljóst að orkuvinnslukerfi landsins verður rekið nálægt og yfir getumörkum og Landsnet spáir neikvæðum orkujöfnuði. Aukið orkuframboð er bráðnauðsynlegt og þess vegna er skynsamlegt að Kjalölduveita fái fulla málsmeðferð sem sjálfstæður virkjunarkostur hjá öllum faghópum rammaáætlunar og verkefnisstjórn frekar en að fara beint í verndarflokk.

Í tillögu meirihlutans er einnig lagt til að Urriðafossvirkjun fari í biðflokk en það er gert með vísan til þess að tvennar virkjanaframkvæmdir eru fyrirhugaðar í Þjórsá áður en framkvæmdir vegna Urriðafossvirkjunar fara af stað og þannig gefst tækifæri til að meta áhrifin af mótvægisaðgerðum vegna villta laxastofnsins. Þessi tilfærsla breytir engu um þróun orkuframboðs næsta áratuginn en mun styrkja vísindalegan grundvöll ákvarðanatöku um virkjun Urriðafoss.

Það er mikilvægt að hafa í huga að orkuöflun næstu ára stendur ekki og fellur með flokkun virkjunarkosta í einni þingsályktunartillögu um rammaáætlun. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur mun ekki láta níu ár líða án þess að samþykkt sé ný rammaáætlun og heldur ekki afgreiða eina rammaáætlun á sjö árum eins og í tíð síðasta stjórnarmeirihluta, heldur stendur til að fjölga nýjum virkjunarkostum jafnt og þétt og samþykkja rammaáætlun á hverju einasta ári kjörtímabilsins. Skipunarbréf umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til nýrrar verkefnisstjórnar rammaáætlunar er í samræmi við þetta, en þar kemur fram að tillögum um flokkun virkjunarkosta og afmörkun landsvæða skuli skilað til ráðherra með reglulegu millibili og að við tillögugerðina skuli verkefnisstjórn taka mið af markmiðum nýrrar ríkisstjórnar um aukna raforkuöflun í þágu orkuöryggis, orkuskipta og verðmætasköpunar um allt land.

Fyrr í þessum mánuði lauk samráði um frumvarp umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra þar sem lagt er til að bundið verði í raforkulög að stjórnvöld marki stefnu um raforkuöflun með tölulegum markmiðum til tíu ára og að horft sé til þeirrar stefnu í ferli rammaáætlunar við flokkun virkjunarkosta. Fyrir Alþingi liggur jafnframt frumvarp um víðtæka einföldun leyfisferla með breytingum á tíu lagabálkum til þess að greiða fyrir orkuöflun og verðmætasköpun um allt land, en þar er meðal annars lagt til að verkefni í orkunýtingarflokki rammaáætlunar njóti forgangsmeðferðar í stjórnsýslu orkumála. Allt þetta: fjölgun virkjunarkosta í orkunýtingarflokki rammaáætlunar, tenging rammaáætlunarferlisins við yfirlýst markmið um orkuöflun, einföldun leyfisferla og forgangsmeðferð kosta í nýtingarflokki felur í sér róttækar breytingar í orkumálum, íslensku samfélagi til heilla.

Höfundur er aðstoðarmaður umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Höf.: Lárus M.K. Ólafsson