Kársnes Kristinn Örn Sigurðsson flutti í Kópavoginn þegar faðir hans tók við starfi sóknarprests við kirkjuna.
Kársnes Kristinn Örn Sigurðsson flutti í Kópavoginn þegar faðir hans tók við starfi sóknarprests við kirkjuna. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristinn Örn Sigurðsson lét í fyrra húðflúra Kópavogskirkju á handlegginn á sér. Hann hefur sérstaka tengingu við kirkjuna en langafi Kristins, séra Sigurbjörn Einarsson, þáverandi biskup Íslands, vígði kirkjuna árið 1962

viðtal

Flóki Larsen

floki@mbl.is

Kristinn Örn Sigurðsson lét í fyrra húðflúra Kópavogskirkju á handlegginn á sér. Hann hefur sérstaka tengingu við kirkjuna en langafi Kristins, séra Sigurbjörn Einarsson, þáverandi biskup Íslands, vígði kirkjuna árið 1962. Faðir Kristins, séra Sigurður Arnarsson, gegnir nú starfi sóknarprests við kirkjuna. Húðflúrið lét hann gera í Póllandi en unnusta hans gaf honum það í jólagjöf.

Kópavogur hefur reynst Kristni gott heimili síðan hann flutti þangað árið 2009 eftir að faðir hans hóf störf við Kópavogskirkju. Þar áður bjó fjölskylda Kristins í Englandi og Bandaríkjunum en hann segir bæjarbúa hafa tekið vel á móti sér.

Mörg af húðflúrum Kristins hafa skírskotun til fjölskyldumeðlima hans. Fyrsta húðflúrið segir Kristinn að hafi verið teikning af arnarfjöður til minningar um afa sinn, Örn Eiríksson, sem Kristinn Örn var skírður í höfuðið á. „Eftir það varð ekki aftur snúið,“ segir hann.

Útúrflúraður

„Ég er náttúrulega útúrflúraður,“ segir Kristinn. Hann heiðrar ekki aðeins Örn afa sinn með þessum hætti því Kristinn segist einnig vera með stóran kross flúraðan á sig til minningar um hinn afa sinn, séra Karl Sigurbjörnsson, sem einnig var biskup Íslands. Þá segir hann ömmur sínar einnig hafa fengið flúr. Hann lét húðflúra á sig leikhúsgrímur til minningar um Bryndísi Pétursdóttur leikkonu, og rós sem segir amma til minningar um hina ömmu sína, Kristínu Þórdísi Guðjónsdóttur. „Eftir það fannst mér svo ekki annað hægt en að fá mér flúr þar sem segir mamma og ég fékk mér hjarta fyrir hana,“ segir Kristinn um móður sína Ingu Rut Karlsdóttur.

Spurður um viðbrögð Kópavogsbúa segir Kristinn þá vera ánægða með húðflúrið. Hann segist hafa hitt uppalinn Kópavogsbúa, Erp Eyvindarson, sem hafi verið hrifinn og sagst elska það sem hann hafi kallað „mesta gettó-tattú sem hann hefði séð“.

Þá segist Kristinn hafa hitt Hjörvar Hafliðason, sem einnig er kanóna í Kópavogi, við þjónastörf en Kristinn er menntaður framreiðslumaður og hefur starfað sem þjónn. Hann segir Hjörvar hafa tekið hann tali á veitingastað og hrósað honum fyrir flúrið þegar hann hafi séð að Kristinn væri með „Hamraborgina á hendinni,“ eins og hann hefur eftir Hjörvari.

Merki bæjarfélagsins

Kristinn kveðst vera trúaður maður og segist bera hlýjar tilfinningar til hússins. „Kópavogskirkja er bara íkonískasta mannvirkið hér í Kópavogi,“ segir Kristinn. Því má taka bókstaflega vegna þess að útlit kirkjunnar er grunnurinn í opinberu merki bæjarins.

Kirkjan er sú elsta í Kópavogi og var reist eftir teikningum frá embætti húsameistara ríkisins. Hörður Bjarnason veitti embættinu forstöðu á þeim tíma sem kirkjan var byggð, 1958-1962. Ragnar Emilsson arkitekt vann ötullega að teikningunum ásamt Herði.

Gerður Helgadóttir lagði einnig hönd á plóg en hún hannaði steinda glugga kirkjunnar sem smíðaðir voru í víðfrægri gluggasmiðju Oidtmann-bræðra í Þýskalandi, eins og segir á vef sóknarinnar. Þar segir einnig að gluggarnir hafi verið sendir til sömu verksmiðju til viðgerðar fyrir fáeinum árum.

Griðastaður

Kristinn segir tattúið vera til heiðurs föður sínum, séra Sigurði. Hann segir það þó ekki síður vera til heiðurs kirkjunni sjálfri og öllu því sem hún stendur fyrir.

„Þetta er samkomuhús fyrir ólíklegasta fólkið. Þarna situr stétt með stétt og mér finnst mikil fegurð í byggingunni en líka í því sem hún stendur fyrir. Kópavogskirkja er friðarstaður fyrir alla, burtséð frá trú þá tekur kirkjan á móti öllum sem vilja koma,“ segir Kristinn Örn.

Þjónustugeirinn heillaði Kristin sem hefur fundið sína fjöl í bransanum. Hann segist hafa ákveðið að þjóna fólki, eins og faðir hans og afar hans, en með ólíkum hætti. Þá segist hann hafa verið í þjónustu Guðs en við fólk og ef vel er að gáð megi sjá að margt sé líkt með störfunum.

Kristinn starfar nú hjá Rolf Johansen & Co. og sinnir þar veitingageiranum með öðrum hætti en hann hefur áður gert í starfi sínu sem þjónn.

Hann segir að líkt og prestar verði þjónar að setja sig í ýmis hlutverk til að sjá til þess að fólki líði vel. Það komi jafnvel fyrir að þjónar fari í eins konar sálargæsluhlutverk til að hlúa að líðan fólks.

Höf.: Flóki Larsen