Mikill vöxtur hefur verið í umsóknum um vegabréfsáritanir til Íslands á síðustu misserum. Árið 2024 bárust um 35 þúsund umsóknir, sem var 60% aukning frá fyrra ári, og áætlaður fjöldi umsókna 2025 er um 60.000.
Þetta kemur fram í minnisblaði sem utanríkisráðuneytið hefur sent utanríkismálanefnd Alþingis í tengslum við frumvarp um vegabréfsáritanir, sem er til meðferðar hjá nefndinni.
Fram kemur í minnisblaðinu að beinar ríkistekjur af umsóknargjöldum það sem af er ári nemi um 385 milljónum króna og áætlaðar tekjur á árinu öllu séu 650-770 milljónir króna.
Segir ráðuneytið að núverandi stjórnsýslukerfi, með aðkomu Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála, sé óskilvirkt og sprungið og anni ekki því álagi sem skapast hefur vegna mikils fjölda umsókna um áritanir.
Fram kemur í upplýsingum sem ráðuneytið hefur sent utanríkismálanefnd að Danir og Norðmenn afgreiði á bilinu 10-15.000 umsóknir fyrir hönd Íslands í Taílandi, Filippseyjum, Indónesíu, Singapúr, Japan og Ástralíu. Ráðuneytið stefni að því að opna áritunardeild í sendiráði Íslands í Tókýó og taka við afgreiðslu umsókna frá framangreindum löndum.
Þá segir utanríkisráðuneytið að það hafi til skoðunar að opna áritunardeildir í sendiráðum Íslands í Afríku. Ísland hafi nú enga aðkomu að áritanamálum í Afríku sem hafi leitt til bagalegra mála þar sem boðsgestir á ráðstefnur og GRÓ-nemendur lendi í vandræðum við að útvega sér áritun.
Í umsögn lögreglustjórans á Suðurnesjum um fyrrgreint frumvarp segir að starfsfólk embættisins hafi orðið vart við að einstaklingar sæki um vegabréfsáritanir hjá íslenskum stjórnvöldum þar sem umsóknir séu afgreiddar hraðar og það séu meiri líkur á að þær séu samþykktar. Þessir einstaklingar hafi síðan oft enga fyrirætlun um að koma til Íslands og afbóki jafnvel hótel og flug þegar þeir hafa fengið vegabréfsáritun.
Utanríkisráðuneytið segist einnig hafa orðið vart við dæmi um að sótt sé um vegabréfsáritun hjá Íslandi án þess að umsækjendur hyggist raunverulega koma til Íslands. Eftirlit með slíkri háttsemi sé strangt hjá ráðuneytinu og fjölda slíkra umsókna sé synjað í hverri viku. Um þessar mundir sé synjanahlutfall Íslands vegna umsókna sem lagðar hafa verið inn árið 2025 í kringum 11% sem sé sambærilegt við önnur Schengen-ríki. Dæmi séu um að synjanahlutfall á einstökum umsóknarstöðum (einkum einni borg í Indlandi) hafi farið upp í 90% í einstaka mánuði.
Utanríkisráðuneytið segist afgreiða allar umsóknir í samræmi við samræmdar Schengen-reglur og líkur á því að fá umsókn samþykkta hjá Íslandi séu þær sömu og hjá öðrum Schengen-ríkjum.