Ríkisútgjöld Hækkun ríkisútgjalda er stóra málið í þinginu, að mati Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns.
Ríkisútgjöld Hækkun ríkisútgjalda er stóra málið í þinginu, að mati Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns. — Morgunblaðið/Karítas
Fyrirsjáanleg 300 milljarða hækkun ríkisútgjalda á næstu fimm árum er afar gagnrýnisverð, en gert er ráð fyrir 300 milljarða króna hækkun á útgjöldum ríkisins á árunum 2026 til 2030, skv. fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Fyrirsjáanleg 300 milljarða hækkun ríkisútgjalda á næstu fimm árum er afar gagnrýnisverð, en gert er ráð fyrir 300 milljarða króna hækkun á útgjöldum ríkisins á árunum 2026 til 2030, skv. fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þá sé ekki gert ráð fyrir lækkun skulda ríkissjóðs. Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, en hann á sæti í fjárlaganefnd Alþingis.

Hann segir að þessi hækkun ríkisútgjalda sé stóra málið í þinginu og jafnvel stærra mál en fyrirhuguð skattahækkun á sjávarútveginn með stórhækkun veiðigjalda, sem reyndar sé illa unnið mál í alla staði.

„Þegar þau fátæklegu gögn sem lögð hafa verið fram eru skoðuð sést að gert er ráð fyrir miklum ríkisútgjöldum á næstu fimm árum og ekki er hægt að segja að það sé verið að taka á vandanum, eins og með framkvæmd fjárlaga og rekstur ríkisins,“ segir hann.

„Síðan eru atriði sem erfitt er að átta sig á hvernig menn ætla að ná. Framhaldsskólastigið er gott dæmi um það. Það er sem betur fer mikil ásókn í framhaldsskóla, enda stórir árgangar á ferð. Í ofanálag hafa ungmennin okkar mikinn áhuga á verk- og iðnmenntun. Síðasta ríkisstjórn jók framlagið um rúma 4 milljarða til framhaldsskólastigsins á tveimur árum til þess að mæta þessu. Þessi ríkisstjórn ætlar að lækka framlagið um 2,5 milljarða á fimm ára tímabili. Á sama tíma sjáum við biðlista sem hæst fór í 700 ungmenni sem komust ekki í iðnnám. Og þeim fer enn fjölgandi. Þetta hefur ekkert verið rætt og ríkisstjórnin vill augljóslega ekki ræða þessi mál, sem eru stórmál,“ segir Guðlaugur Þór.

Hann segir að sama sé uppi á teningnum þegar að háskólanámi kemur, þótt upphæðirnar séu þar ívið lægri. Lækka eigi fjárframlög til málaflokksins þrátt fyrir fjölgun nemenda.

„Ef ríkisstjórnin ætlar að gera einhverjar stórkostlegar breytingar sem eiga að skila því að börnin okkar hafi tækifæri til náms með miklu minni tilkostnaði en áður, þá eiga menn að segja hvernig fara á að því. Það kemur ekkert fram um það í texta fjármálaáætlunarinnar og sannarlega ekki þegar fulltrúar ráðuneytanna komu fyrir fjárlaganefnd. Þá fengust engin svör,“ segir hann.

„Mikill áhugi ungs fólks á námi, t.d. verknámi, er mikið gleðiefni en ríkisstjórninni virðist vera alveg sama og hún ætlar að refsa unga fólkinu fyrir áhugann,“ segir Guðlaugur Þór.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson