Ökumaður bifhjóls, sem lést í kjölfar óhapps á Heiðmerkurvegi 7. mars 2024, missti stjórn á hjóli sínu sem fór út fyrir veg þar sem hann kastaðist af því. Hinn látni var 19 ára gamall karlmaður og hafði hann ekki ökuréttindi til þess að aka bifhjóli af þessari gerð. Hann var engu að síður skráður eigandi hjólsins, en skráningarnúmer var innlagt hjá skoðunarstofu og það skráð úr umferð. Maðurinn hlaut fjöláverka í slysinu og lést af völdum þeirra. Er þetta á meðal þess sem fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa (RNSA) sem birt var á heimasíðu nefndarinnar í gær.
Vegurinn þar sem slysið varð er með bundnu slitlagi án vegmerkinga og er hámarkshraði þar 60 km/klst. Að sögn samferðamanns var ekið á 40 til 50 km/klst. hraða þegar slysið varð. Ekki reyndist unnt að sjá neinar vísbendingar um hraða bifhjólsins í tæknirannsókn.
Hjólið endastakkst
Slysið varð á beinum vegarkafla en 13 metra frá þeim stað sem hjólið fór út fyrir veg var hvilft og síðan lágt barð sem leið bifhjólsins lá yfir. Þar við lá brot úr hjólinu. Aðstæður á slysstað bentu til þess að ökumaður hefði kastast af hjólinu þegar það lenti í hvilftinni og á barðinu, en hann lá sjö metra frá þeim stað, sem var um 20 metra frá þeim stað þar sem hjólið fór loks út af veginum. Bifhjólið stöðvaðist að fullu eftir 31 metra útafakstur og 11 metra frá ökumanninum. Talsvert var af dreifðum brotum úr hjólinu á slysstað og brotnaði m.a. stýri þess í slysinu. Það bendir til þess að hjólið hafi endastungist. Þá var niðurstaða áfengis- og lyfjarannsóknar á ökumanninum neikvæð.