Íslendingar styrkja myndarlega hjálparstarf fyrir börn ef skoðaðar eru tölur í ársreikningum barnahjálparsamtaka á Íslandi. Þegar skoðaðar eru tekjur fernra þekktustu samtakanna eru heildartekjur þeirra tæpir 2,5 milljarðar króna á ári

Fréttaskýring

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Íslendingar styrkja myndarlega hjálparstarf fyrir börn ef skoðaðar eru tölur í ársreikningum barnahjálparsamtaka á Íslandi. Þegar skoðaðar eru tekjur fernra þekktustu samtakanna eru heildartekjur þeirra tæpir 2,5 milljarðar króna á ári. Þar er átt við SOS Barnaþorp, UNICEF, Barnaheill og ABC Barnahjálp. Einstaklingar og einkafyrirtæki styrkja þessi samtök samtals um liðlega 2 milljarða króna á ári ef mið er tekið af ársreikningum. Þessi hjálparsamtök eiga það sameiginlegt að safna fé til að koma börnum til hjálpar víða um heim, til dæmis í tengslum við stríðsátök eða náttúruhamfarir.

SOS Barnaþorp fékk mestar tekjur á árinu 2024. Þar kemur fram að styrkir frá almenningi hafi numið 782 milljónum króna. Sú upphæð kemur ekki öll í mánaðarlegum framlögum frá SOS-foreldrum sem dæmi því tekið er fram á vef samtakanna að á síðasta ári hafi SOS Barnaþorpum borist stór erfðagjöf. Ef fyrirtæki eru tekin með fengu samtökin 884 milljónir í fyrra.

UNICEF fékk 727 milljónir í styrki frá einstaklingum og fyrirtækjum í fyrra en tekjurnar voru 849 milljónir þegar allt er talið. Í færslu á vef samtakanna kemur fram að mikill meirihluti framlaganna á Íslandi komi frá almenningi, svokölluðum heimsforeldrum. Þar segir jafnframt að engin landsnefnd hjá UNICEF safni hlutfallslega hærri fjárlögum en það sem alla jafna gerist hjá samtökunum hérlendis.

Tekjur af reglulegri starfsemi hjá Barnaheillum voru tæpar 425 milljónir í fyrra. Hlutfallslega var aukningin töluverð en tekjurnar jukust um 48 milljónir. Þar kemur fram að 58% tekna komi frá einstaklingum en upphæðin var um 247 milljónir árið 2024. Þeir sem styrkja með mánaðarlegum framlögum eru kallaðir heillavinir.

Hjá ABC Barnahjálp hefur ársreikningur fyrir 2024 ekki verið birtur á vef samtakanna og hér er notast við tölur fyrir árið 2023. Þá voru heildartekjurnar 305 milljónir. Um 235 milljónir eru flokkaðar undir styrki og sölu á varningi.

Reksturinn kostar sitt

Í ársreikningi SOS Barnaþorpa kemur fram að framlög sem send voru úr landi hafi verið tæplega 617 milljónir og börnin sem Íslendingar styrktu séu 9.609 í 107 löndum. Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður var 152,5 milljónir. Á vef samtakanna segir að 855 krónur af hverju þúsund króna framlagi renni í sjálft hjálparstarfið og viðmið samtakanna sé að sá kostnaður sé í mesta lagi 20%.

Hjá UNICEF voru laun og launatengd gjöld um 206 milljónir og gjöldin voru alls 306 milljónir. Á vef samtakanna er sett fram loforð um að aldrei nokkurn tímann skuli minna en 75% af söfnunarfé fara beint til verkefna fyrir börn. Þar segir enn fremur að óeyrnamerkt framlög geri UNICEF kleift að bregðast við þar sem þörfin sé mest hverju sinni. Í fyrra greiddi UNICEF á Íslandi 549 milljónir til alþjóðlegra verkefna á vegum UNICEF.

Rekstrargjöld hjá Barnaheillum voru alls 362 milljónir, þar af 50 milljónir í skrifstofu- og stjórnunarkostnað. Tæpar 78 milljónir fóru í kynningar og fjáröflun. 172 milljónir fóru í erlend verkefni samkvæmt ársreikningi. Barnaheill eru hluti af alþjóðlegum samtökum sem heita Save the Children og hafa verið til í meira en öld.

Hjá ABC Barnahjálp voru gjöldin alls 301 milljón árið 2023. Laun og launatengd gjöld voru tæpar 74 milljónir og annar rekstrarkostnaður 59,5 milljónir. Tæpar 167 milljónir voru sendar til hjálparstarfs og fór hæsta upphæðin til Úganda eða rúmar 64 milljónir. Í ársreikningi 2023 má sjá að samtökin greiddu 37 milljónir í húsaleigu. ABC eru íslensk samtök og skera sig úr að því leyti frá hinum þrennum sem eru hér til umfjöllunar.

Þessi upptalning er vitaskuld ekki tæmandi um barnahjálparsamtök á Íslandi því einnig eru samtök þar sem aðrar áherslur eru í starfseminni, samtök sem einbeita sér að börnunum hér innanlands.

Umhyggja er til að mynda stór samtök sem vinna að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra. 18 félög eiga aðild að Umhyggju: AHC samtökin, Barnahópur Gigtarfélagsins, Breið bros, CP félagið, Dropinn, Einstök börn, Félag flogaveikra, Foreldradeild Blindrafélagsins, Foreldrahópur CCU, Foreldrahópur Geðhjálpar, Foreldra- og barnahópur Nýrnafélagsins, Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra, Hetjurnar, Lind, Neistinn – styrktarfélag hjartveikra barna, PKU félagið á Íslandi, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna og Tourette-samtökin á Íslandi.

Höf.: Kristján Jónsson