Líney Sigurðardóttir
Þórshöfn
Skemmtiferðaskip hafa ekki verið tíðir gestir í Þistilfirðinum en lúxusskipið Silver Wind varpaði akkerum við Tumavík á mánudagsmorgun og farþegarnir voru fluttir á land í gúmmíbátum í öldurótinu, um 170 manns. Þeir létu kalsaveður ekki á sig fá enda biðu þeirra hlýjar móttökur hjá gestgjöfunum, hjónunum Hildi Stefánsdóttur og Sigurði Þ. Guðmundssyni, og þeirra aðstoðarfólki, en hjónin reka ferðaþjónustuna Grástein á bænum Holti sem er nokkru ofan við þjóðveginn.
Kjötsúpa, kaffi og kleinur
Hildur segir að hugmyndin um að taka á móti gestum skemmtiferðaskips þarna í fjörunni hafi vaknað fyrir fimm árum en þá setti kórónuveirufaraldurinn strik í reikninginn. „Ég var þá búin að vera í sambandi við ýmsa aðila en núna gafst loks tækifæri til að láta reyna á það hvort við gætum tekið á móti hópum af skemmtiferðaskipum þarna í fjörunni okkar og þó að veðrið hafi ekki beint sýnt á sér sparihliðina þá gekk allt að óskum. Gestir voru líka meðvitaðir um að þeir væru að fara í hreina „náttúruferð“ (e. authentic Iceland) þarna í Dalsfjöruna þar sem allir koma til dyranna eins og þeir eru klæddir, enginn leikaraskapur hjá okkur,“ sagði Hildur og var ánægð með daginn.
Móttakan í fjörunni var vel undirbúin og í rúmgóðu veitingatjaldi var góðgæti á boðstólum; kjötsúpa, kaffi og kleinur, og lifandi tónlist leikin þegar allir gestir voru komnir á land. Lítil „búð“ var við tjaldið þar sem kenndi ýmissa grasa, allt var það íslenskt handverk úr heimabyggð. Einnig var búið að setja upp hús með vatnssalerni svo ekkert skorti á aðstöðuna þarna á svörtum sandinum.
„Við buðum líka upp á gönguferðir um svæðið með leiðsögn heimamanna sem sögðu frá svæðinu, hver á sinn einstaka hátt, en val var um að ganga einn, tvo eða fimm kílómetra og flestir fóru í göngu,“ sögðu þau Hildur og Sigurður, sem voru með einvalalið til leiðsagnar sem fór á kostum í lýsingum sínum á svæðinu, þó í fyrsta sinn í hlutverki leiðsagnarfólks.
Fyrsta heimsókn af fjórum
Þessi heimsókn var frumraun þeirra Hildar og Sigurðar í móttöku skemmtiferðaskipa en von er á Silver Wind aftur í fjögur skipti og næsta heimsókn er eftir tvær vikur.
„Við vildum láta reyna á það hvort við gætum tekið á móti hópum af skemmtiferðaskipum hér í Dalsfjörunni okkar þar sem svartur sandurinn og hrein náttúra eru í öndvegi. Þessi fyrsta heimsókn gekk mjög vel, við erum meira en tilbúin í fleiri móttökur,“ sögðu Holtshjónin, sem vonast til að ná meiri fjölbreytni í ferðaþjónustu hér á svæðinu með þessari nýbreytni. Farþegar voru ánægðir með þessa upplifun af íslenskri náttúru en næsti áfangastaður skipsins var Raufarhöfn.