Ríkisstjórn Ríkisstjórnin áformar að lækka fjárframlög til menntamála skv. fjármálaáætlun og munu bæði framhalds- og háskólastig finna fyrir því.
Ríkisstjórn Ríkisstjórnin áformar að lækka fjárframlög til menntamála skv. fjármálaáætlun og munu bæði framhalds- og háskólastig finna fyrir því. — Morgunblaðið/Ólafur Árdal
Fjárframlög ríkisins til menntamála hækkuðu um rúma 4 milljarða króna á árunum 2023 til 2025, en nú bregður svo við að skv. fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025 til 2030 verða þessi sömu framlög um 2,5 milljörðum lægri árið 2030 en þau eru 2025

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Fjárframlög ríkisins til menntamála hækkuðu um rúma 4 milljarða króna á árunum 2023 til 2025, en nú bregður svo við að skv. fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025 til 2030 verða þessi sömu framlög um 2,5 milljörðum lægri árið 2030 en þau eru 2025. Þetta er niðurstaðan, þrátt fyrir að augljóst sé að fólki á framhaldsskólastigi fjölgi verulega. Við þetta bætist að biðlisti í iðnnám taldi 700 manns fyrir skemmstu og nú kemst enginn stúdent í slíkt nám.

Í þessu sambandi vísar ríkisstjórnin til aðhaldstillagna hagræðingarhóps á hennar vegum og fyrirætlana um að sameina stjórnsýslu framhaldsskóla, að því er fram kemur í tillögunum. Er þar lagt til að allir framhaldsskólar landsins sæki þjónustu til sömu stjórnsýslustofnunarinnar, en þó haldi hver skóli „faglegu sjálfstæðu og nafni“, eins og komist er að orði.

Segir í hagræðingartillögunum að með hagræðingunni megi fækka millistjórnendum í framhaldsskólakerfinu og einfalda rekstur. Skólarnir muni sinna kjarnahlutverki sínu, en fá sterkara bakland varðandi rekstur, upplýsingatækni og mannauðsmál. Þá gæti tillaga þessa efnis stutt við sameiningar framhaldsskóla.

„Þetta er eina vísbendingin um hvernig ríkisstjórnin ætlar að ná þessum sparnaði, frá hópi sem hún er búinn að afneita, en þar er í raun verið að leggja til að framhaldsskólarnir verði sameinaðir í einn,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi flokksins í fjárlaganefnd Alþingis.

Þegar að háskólastiginu kemur kveður við sama tón hjá ríkisstjórninni. Á tímabilinu 2025 til 2030 nemur lækkun fjárframlaga til þess málaflokks 522 milljónum.

„Á háskólastiginu er nákvæmlega sama málið á ferðinni og í framhaldsskólunum, þótt upphæðirnar séu lægri. Ekki er vísað til neins þegar kemur að því hvernig á að ná fram 2,7 milljarða sparnaði í þeim málaflokki,“ segir Guðlaugur Þór og vísar þar til þess að raunhækkun í málaflokknum sé 2,2 milljarðar sem sé tilkomin vegna fjölgunar nemenda.

„Hér er ríkisstjórnin að sýsla með fjöregg þjóðarinnar sem er menntunin fyrir unga fólkið í landinu og þetta krefst betri útskýringa,“ segir hann.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson